Fara í efni

REYNA ÞAU AÐ KAUPA SÉR FRIÐ MEÐ ÞVÍ AÐ FÓRNA SAMHERJUM?


Ríkisstjórnin á að segja af sér. Öll einsog hún leggur sig. Þetta veit ríkisstjórnin innst inni. Ef þrýstingur vex á afsögn hennar þá spái ég því að gripið verði til gamalkunnra varna, hrókeringa og hugsanlega mannfórna.

Hverjir gætu orðið fyrir valinu? Árni, fjármálaráðherra? Vel gæti farið svo að honum yrði fundið nýtt starf. Björgvin bankamálaráðherra? Hugsanlega yrði hann látinn fjúka.
Nú er það svo að báðir þessir ráðherrar eiga að segja af sér. Að sjálfsögðu. En ekki einir og sér. Það er fráleitt.
Forgangsröð mín yrði meira að segja allt önnur. Ég vil nefnilega byrja á verkstjórunum, þeim Geir og Ingibjörgu. En þau voru ekki bara verkstjórarnir. Þau eru sek um verstu afglöpin.
Geir Haarde, forsætisráðherra, og  Ingibjörg Sólrún, utanríkisráðherra, ættu tvímælalaust að fjúka fyrst ef einstakir ráðherrar yrðu látnir víkja.

Í ljós hefur komið að bæði Geir og Ingibjörg voru í upphafi árs - og aftur og ítrekað - upplýst um að bankakerfið stæði veikt og að hætta væri á ferðum. Engu að síður héldu þau út í heim í slagtogi með stærstu eigendum bankanna og stjórnendum, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Sigurði Einarssyni til að segja fjárfestum á sameiginlegum fundum með þeim, m.a. í New York og Kaupmannahöfn, að allt væri í himnalagi. Fólk og fyrirtæki gætu óhrædd haldið áfram að fjárfesta hjá „íslensku" bönkunum, þar á meðal í Icesave.

Þegar haft er í huga að skuldasöfnunin varð mest eftir þessar áróðurs- og  auglýsingaferðir þeirra Geirs og Ingibjargar, hlýtur að vakna spurning um pólitíska ábyrgð þeirra. Það væri vesælt af þeirra hálfu að reyna að bjarga eigin skinni með einstökum mannfórnum eða hrókeringum. Oddvitar ríkisstjórnarflokkanna eiga að segja af sér strax og undanbragðalaust. Síðan á að boða til alþingiskosninga.

Ég hef nokkra sannfæringu fyrir því að þjóðin vilji ekki láta plata sig meira í bili; að hún sé búin að fá nóg af málamyndalausnum.