REYNT AÐ YFIRBUGA LÝÐRÆÐIÐ
Helsta viðfangsefni stofnanaveldisins í Evrópu er hvernig megi koma í veg fyrir að lýðræðisleg niðurstaða í þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi um úrsögn Breta úr Evrópusambandinu nái fram að ganga.
Með stofnanaveldinu er átt við ríkisvald, fjölmiðlaveldið, háskólasamfélagið, “aðila vinnumarkaðar”, að ógleymdum “álitsgjöfum”(allt með sínum undantekningum), sem tilbúnir eru að stilla sér upp gagnvart meirihlutanum, afgreiða hann sem jaðarhóp, pópúlista og allt þaðan af verra.
En okkur fjölgar sem spyrjum, er “óþægileg” en engu að síður lýðræðisleg niðurstaða “popúlistísk” og þar með röng? Samt er þetta meirihlutinn!
Og hvað sem hver segir þá var það meirihlutaniðurstaða í kosningu í Bretlandi að Bretar skyldu út úr Evrópusambandinu. Evrópusambandið vill hins vegar ekki hleypa Bretum út án samnings sem er hamlandi og hindrandi fyrir Breta. Það finnst “álitsgjöfunum” og prófessorunum í samfélagsréttlæti fullkomlega rétt afstaða ESB og síðan eru það allir hinir sem taka bakföllin: Út án samnings, hvílík hneisa!
Leitun er hins vegar að þeim sem hafa kynnt sér þennan lífsnauðsynlega samning! Það virðist óþarfi í heimi þar sem hver étur upp eftir öðrum samkvæmt formúlunni ertu með eða á móti ESB.
En svo eru það þau sem segja: Auðvitað eiga Bretar að fara út án samnings, og semja síðan á jafnréttisgrundvelli án þess að hafa písk í bakið.
Þótt hinir bresku verkstýrendur séu ekki mér að skapi þá gæti þetta orðið til þess að hjálpa þeim öflum sem vilja hefja ESB upp úr hjólförum harðlínu kapítalisma – miðstýrðri markaðshyggju frá Brussel.
Mín tilfinning er sú að niðurstaðan af samningslausri útgöngu Bretlands yrði ekki eins hörmuleg og álitsgjafar stofnanaveldisins vilja vera láta. Sjá til upprifjunar frá Icesave tímanum: https://www.ogmundur.is/is/greinar/adeins-minni-urtolur
Kapítalisminn/gróðafrekjan er nefnilega sterkari en svo að búrókratar eða stjórnmálamenn verði látnir spilla veislunni.