Fara í efni

"Ríkið á ekki að gera það sem einstaklingar og fyrirtæki geta gert."

Staðhæfingin í fyrirsögninni hefur lengi verið viðkvæðið hjá ríkisstjórninni og reyndar markaðshyggjufólki almennt. Á þessari forsendu voru ríkisbankarnir m.a. hlutafélagavæddir og seldir. Nú er að komast reynsla á hvernig einkabanki án aðhalds frá bönkum í almannaeigu (þakka skyldi þó Íbúðalánasjóð)  bera sig að. Í gærkvöldi var eftirfarandi frétt á Stöð tvö undir fyrirsögninni, Lántakendur skili þvagsýni: "Þeir sem sækja um hundrað prósent íbúðalán hjá Íslandsbanka verða að taka lánatryggingu og skila blóð- og þvagsýni til læknis. Þá er beðið um upplýsingar um heilsufar nánustu skyldmenna en slíkt er óheimilt samkvæmt lögum um Persónuvernd, nema samþykki þeirra liggi fyrir. Þeir sem taka slíkar tryggingar þurfa að skila heilbrigðisvottorði frá lækni sem meðal annars þarf að taka blóðprufu og þvagprufu, auk þess að svara mjög ítarlegum spurningalista um heilsufar sitt. Trúnaðarlæknir Tryggingafélagsins og tveir hjúkrunarfræðingar hafa aðgang að þeim upplýsingum.
Fólk fyllir einnig út eyðublað með ítarlegum heilbrigðisupplýsingum sem sölumaður kvittar fyrir. Meðal þess sem fólk þarf að svara á því eyðublaði er hvort foreldrar eða systkini þeirra hafi haft hjarta- eða æðasjúkdóma, geð- eða taugasjúkdóma, berkla, krabbamein, sykursýki eða sjúkdóma sem geti verið arfgengir. Þessar upplýsingar er óheimilt að veita nema með samþykki viðkomandi skyldmennis. Það er hins vegar ekki tekið fram á eyðublaðinu. Þetta er ekki einsdæmi heldur er svipuð krafa gerð hjá öðrum tryggingafélögum, meðal annars VÍS sem er í samstarfi við Landsbankann..."

Nú er það svo að þær kröfur sem við getum reist á hendur einkafyrirtækjum geta aldrei orðið sambærilegar við hlutverk og skyldur stofnana í eigu samfélagsins.

Í dag tók ég þetta mál engu að síður upp á þingi á þeirri forsendu að bankar og fjármálastofnanir hefðu ákveðna þjónustuskyldu gagnvart samfélaginu, þeir störfuðu samkvæmt lögum sem Alþingi setti og hlyti þingið að íhuga sínar skyldur þegar á daginn kæmi að bankarnir mismunuðu fólki eftir búsetu ( sbr. hugmyndir þeirra að veita einvörðungu fólki íbúðalán sem byggi á svæðum þar sem veð væru "virk") og nú eftir heilsufari!

Í þessu samhengi vil ég vekja athygli á bráðgóðum pistli Einars Ólafssonar rithöfundar í Morgunpósti VG í dag ( vefslóð Morgunpóstsins: http://www.vg.is/postur ) en hann er einnig að finna á  frábærri heimasíðu Einars (http://notendur.centrum.is/~einarol/ )undir fyrirsögninni: Tökum olíufyrirtækin upp í skuld. Það sem hér hefur verið sagt rímar vel við upphafsorðin í pistli Einars Ólafssonar:

"Það er stundum sagt að ríkið eigi ekki að vera að vasast í því sem einkaaðilar geta gert og það á að heita röksemd fyrir einkavæðingu. Það má auðvitað eins segja að einkaaðilar eigi ekki að vera að vasast í því sem ríkið getur gert og kalla það röksemd fyrir þjóðnýtingu. En auðvitað dugar hvorug fullyrðingin ein sér til að rökstyðja einkavæðingu eða þjóðnýtingu.

Þegar einstaklingur er með eigin rekstur er hann venjulega að reyna að framfleyta sér og sínum en oft er faglegur áhugi og metnaður honum meira virði en hámarksgróði. Þetta á auðvitað fyrst og fremst við um ýmis konar smárekstur og það er varla heppilegt að opinberir aðilar séu að sjá um allan slíkan rekstur. Það fer þó eftir því hvers eðlis starfsemin er. Á sviði heilbrigðisþjónustu til dæmis er rétt að ganga nokkuð langt í opinberum rekstri en rekstur veitingahúsa er væntanlega betur kominn í höndum einkaaðila.

Rökin fyrir því að rekstur mjög stórra fyrirtækja sé betur kominn í höndum einkaaðila en opinberra eru langsótt. Hver er munurinn á stjórnanda stórs hlutafélags eða stjórnanda ríkisfyritækis? Í báðum tilvikum er hann að vinna í umboði einhverra eigenda. Og eigendur stórs almenningshlutafélags eru alveg jafnfjarlægir og eigendur opinbers fyrirtækis. Ef maðurinn er virkilega hæfur reynir hann væntanlega að vinna sitt verk eins vel og hann getur, hvort sem markmiðið er hámarksarður hluthafa í olíufyrirtæki eða skilvirkur rekstur og góð þjónusta sveitarfélags. Sá sem heldur að gróðafíkn hluthafanna þurfi að vera eins og svipa á stjórnendur og starfsmenn ætti fyrst og fremst að líta í eigin barm. Ég held að stjórnandi sem þarf slíka svipu sé einfaldlega ekki góður stjórnandi hvort sem er hjá einkafyrirtæki eða opinberu.

Olíufyrirtækin íslensku eru góð dæmi um fyrirtæki sem væru sennilega betur komin í opinberum rekstri en einkarekstri. Það er mjög hæpið að einhverjir einstaklingar hafi horft yfir svið olíu- og bensínsölu á Íslandi með sama stolti og eigandi lítils veitingahúss gerir þegar hann sér ánægða gesti sína standa upp frá borðum. Hins vegar hafa stjórnendur olíufyrirtækjanna ábyggilega verið stoltir þegar þeir gátu sýnt góðar afkomutölu í ársreikningum enda hefur hámarksgróði verið meginmarkmiðið.

En auðvitað ætti slíkt fyrirtæki að hafa þann tilgang fyrst og fremst að gera olíu og bensín aðgengilegt neytendum á bestu mögulegum kjörum. Þessir neytendur eru dreifðir um allt land, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Og eflaust er miklu dýrara að halda uppi bensínsölu á afskekktum og fáförnum stað en í stærri bæjum. Ætli það hefði nú ekki verið langbest ef ríkið hefði bara þjóðnýtt þessi þrjú olíufyrirtæki á sínum tíma og einfaldað reksturinn í eitt fyrirtæki. Það hefði auðvitað verið hægt að semja við einkaaðila um rekstur einstakra bensínstöðva með tilheyrandi sjoppum, en verðlagning eldsneytisins hefði verið í höndum hins opinbera fyrirtækis og miðast við það að verðið væri jafnt alls staðar og alltaf eins lágt og mögulegt væri.

Kannski er ekki of seint að stíga þetta skref. Við eigum ansi mikið inni hjá olíufyrirtækjunum. Eigum við ekki bara að taka þau upp í skuld, segja forstjórunum upp og ráða nýja? Neytendurnir yrðu þá jafnframt eigendur, almenningur í landinu, þar mundi engin mótsögn ríkja. Og ef við viljum tala um gróða, þá fælist gróði eigendanna í góðri þjónustu á lægsta mögulega verði en ekki samráði um hæsta mögulega verð. "

.