RÍKISSTJÓRN FJÁRMAGNSINS
Af hverju er í lagi að:
-bæta innistæðueigendum skaða við hrun bankanna
-bæta eigendum peningamarkaðsreikninga skaða
-lána gjaldþrota fjármálafyrirtækjum á 2% vöxtum
En of dýrt að
-bæta íbúðakaupendum tjón vegna bankahrunsins
-lækka vexti á lánum til almennings og fyrirtækja
-reka ríkissjóð með halla með kreppan gengur yfir
Ráðstafanir ríkisins síðustu 7 mánuði bera öll einkenni þess að verið sé að vernda fjármagnið (sparifjáreigendur, lífeyrissjóði og aðra fjármagnseigendur) og ganga á hagsmuni skuldara (fólk í rekstri og fólk í fjárfestingum). Ástæðan er fyrst og fremst pólitísk. Ríkisvaldið og stjórnmálaflokkar hafa tekið sér stöðu með fjármagni og eigendum þess. Í raun eru engin stjórnmálaöfl sem taka óhikað stöðu með rekstri og fjárfestingum. Mikið er talað um nauðsyn þess að bankarnir geti farið að lána. Og um "mikilvægi bankakerfisins". En samt er einsog menn átti sig ekki á mikilvægi skuldara og hafi ekki áhyggjur af hagsmunum þeirra. Hin mórölsku rök um að menn hefðu ekki átt að skuldsetja sig of mikið hitta fyrir lánveitandann sem með sama hætti hefði ekki átt að lána of mikið.
Það er ekkert athugavert við það að stjórnmálaflokkar taki afstöðu með fjármagnseigendum en verra að þeir gera það á kostnað jafnvægis og jafnræðis. Ef allir flytja sig á einn stað í bátnum, hvolfir honum.
Leikreglunum var breytt í miðjum klíðum, til hagsbóta fyrir fjármagnseigendur. Þarmeð var og friðurinn rofinn.
mkv
Hreinn K