Fara í efni

Ríkisstjórnin fær rauða spjaldið!

 

Ríkisstjórnin fær rauða spjaldið!


Mynd Stefán Karlsson Fréttablaðinu

Á fjölmennum útifundi á Austurvelli sl. miðvikudag var ríkisstjórn Íslands sýnt rauða spjaldið. Í knattspyrnunni þýðir þetta brottvísun af velli. Nýjustu tilefnin eru að sjálfsögðu Fjölmiðlafrumvarpið og frumvarp um réttindaskerðingu hjá starfsmönnum ríkisins, en sem kunnugt er stendur til að auðvelda forstöðumönnum stofnana ríkisins að reka fólk skýringarlaust! Þetta á að gera þvert á vilja allra heildarsamtaka launafólks. Fundurinn á Austurvelli beindist gegn ólýðræðislegum vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar en til stuðnings lýðræðinu. Skoðanakannanir um frumvörp ríkisstjórnarinnar benda til þess að hratt fjari nú undan henni. Samkvæmt skoðanakönnun í Fréttablaðinu í dag eru yfir 80% landsmanna andvíg Fjölmiðlafrumvarpinu og má ætla að hluti andstöðunnar skýrist af því að fólk vilji ekki lengur láta bjóða sér vinnubrögð af þessu tagi.

Eftirfarandi er hvatningin sem birt var til almennings um að sækja útifundinn og síðan er birt ályktunin sem samþykkt var á honum.

Hingað og ekki lengra!

Lýðræði byggist á umræðum, gagnsæi, ábyrgð, virðingu og trausti. Íslensk stjórnvöld sniðganga lýðræðislega umræðu í hverju málinu á fætur öðru og beita handafli til að koma fram málum. Írak, útlendingalög, umhverfismál, öryrkjar, réttindi launafólks, Hæstiréttur, Umboðsmaður Alþingis, kærunefnd jafnréttismála, og nú síðast fjölmiðlar. Nú er mælirinn meira en fullur. Leikreglur lýðræðisins eru ekki virtar. Við erum þjóðin, við berum ábyrgð á lífinu í landinu og lífsskilyrðum komandi kynslóða. Látum í okkur heyra. Þrengjum okkur í gegnum hlustir ráðamanna. Við viljum raunverulegt lýðræði! Hingað og ekki lengra! Við mótmælum öll!
Áhugahópur um virkara lýðræði

Ályktun útifundarins:
Frá þeirri ákvörðun var aldrei hvikað“ sagði forsætisráðherra fyrir rúmu ári síðan um sameiginlega ákvörðun sína og utanríkisráðherra í umdeildu máli. Í stjórnmálum er óhvikul staðfesta leiðtoganna frækorn ofbeldis og lýðræðinu fjandsamleg. Ef þeir kunna ekki að hlusta hnignar lýðræðinu.
Leiðtogar landsins líta á lýðræðið sem einfalt meirihlutavald. Þá víkur samviskan fyrir flokksaga, og sjálfstæð hugsun fyrir duttlungum einstaklinga. Stjórnkerfið breytist í formreglur sniðnar að fyrirætlunum valdhafa. Þegar þannig er ástatt er vilji almennings að engu hafður, mikilvægum staðreyndum er leynt, lagt er til atlögu við einstaklinga og fyrirtæki í stað þess að setja almennar leikreglur.
Í gömlu ættjarðarkvæði er talað um „þúsund radda brag“. Í virku lýðræði þurfa þúsundir radda að heyrast  og leiðtogarnir verða að hlusta. Við krefjumst þess stjórnvöld vakni af dásvefni valdhrokans og fari að hlusta á raddir þegna sinna. Við krefjumst þess að raunverulegar umræður fari fram áður en ákvarðanir eru teknar. Við krefjumst gagnsæis og höfnum leynimakki. Við krefjumst þess að lýðræðið virki!"