Ríkisstjórnin forgangsraðar
Fyrsta umræða um fjárlögin fór fram á Alþingi í dag. Sá háttur er hafður á að kynna þingmönnum úr stjórnarandstöðu ekki efnisatriði fjárlaga fyrirfram. Lítið ráðrúm gefst því til að fara í saumana á innihaldi frumvarpsins fyrir fyrstu umræðu. Hún er því dæmd til að vera almenns eðlis og nokkuð yfirborðskennd. Engu að síður fékk þingheimur innsýn í sálarlíf ríkisstjórnarinnar. Þar er heldur betur pottur brotinn.
Staðnæmst skal við eitt atriði hér: Skerðingu á atvinnuleysisbótum. Atvinnulaus maður fær nú 77.499 kr. á mánuði. Af þessu greiðir hann skatta og til lífeyrissjóðs. Samkvæmt frumvarpinu er ætlunin að skerða bætur til atvinnulausra þannig að fyrstu þrjá dagana verði þeir án bóta. Hvað þýðir það? Samkvæmt samningum eru 21,67 vinnudagar í mánuði. Það er einfalt reikningsdæmi að finna hver skerðingin er. Þrír dagar á atvinnuleysisbótum gæfu 10.722 krónur. Til stendur að hafa þessa upphæð af atvinnulausu fólki sem sannanlega býr við hvað erfiðust félagsleg og efnaleg skilyrði allra þegna landsins. Um slíka forgangsröðun þarf ekki að hafa mörg orð.