Fara í efni

RÍKISSTJÓRNIN GERIR SÉR GLAÐAN DAG

Mynd: mbl.is
Það var glatt á hjalla í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu á föstudagskvöldið segir í flennifrétt í Morgunblaðinu í dag. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafði þá setið að völdum á Íslandi í tíu ár upp á dag. Af því tilefni  bauð ríkisstjórnin sjálfri sér og öllum ráðherrum, sem gegnt hafa embætti á þessum tíma, ásamt mökum til viðhafnarkvöldverðar. Auðvitað er sjálfsagt að fólk geri sér öðru hvoru glaðan dag og stundum er það réttlætanlegt að hið opnbera efni til fagnaðar. Einhverra hluta vegna finnst mér þessi kvöldverður á kostnað skattborgarans ekki ganga upp. Ef til vill er hann þó táknrænn; dæmigerður fyrir þá sem setið hafa lengi við kjötkatlana og hafa glatað dómgreind sinni. Davíð Oddssyni og Halldóri Ásgrímssyni finnst greinilega að þeir geti seilst í opinbera sjóði af hvaða tilefni sem er.

Sjálfshól ráðherranna á sérstökum fréttamannafundi áður en þeir settust að veisluborði fékk ítarlega umfjöllun í fjölmiðlum og minnti á vel heppnaðar gróðursetningarferðir Daniels Araps Mois fyrrum forseta í Kenýu. Sá maður var einráður í heimalandi sínu og allt sem hann gerði taldist fréttnæmt. Á valdatíma hans dvaldi ég í Kenýu í nokkra daga. Athafnir forsetans voru taldar markverðustu fréttir í fjölmiðlum alla dagana. Einn daginn vann Daniel það afrek að gróðursetja trjáhríslu. Að sjálfsögðu var það fyrsta frétt í sjónvarpi þann daginn. Líkt er því farið með Davíð og Halldór. Þeir eru alltaf að vinna afrek.

Á fréttamannafundi þeirra Davíðs og Halldórs kepptust þeir um að mæra hvorn annan, hvað þeir væru góðir félagar og hve fljótir þeir væru að taka ákvarðanir og það væri ekkert smáræði sem þeir væru búnir að ákveða á undanförnum árum. "Auðvitað erum við sem sitjum í ríkisstjórninni stolt af þessum árangri og erum stolt af því að hafa fengið að vinna saman með þessum hætti og skila þeim árangri sem raun ber vitni," sagði Halldór.

Já, það er þetta með allar ákvarðanirnar. Skrýtið að þeir virtust ekkert hafa munað eftir vaxandi misskiptingu í íslensku þjóðfélagi á valdatíma þeirra, svikunum gagnvart öryrkjum, niðurskurðinum á sjúkrahúsunum, auknum sjúklingagjöldum, heimsmeti í landsskuldum, einkavæðingarspillingunni, ósannindinum í Íraksmálinu og eyðileggingunni við Kárahnjúka.

Kannski mundu þeir eftir þessu öllu en töldu ekki ástæðu til að ræða þetta sérstaklega enda tilefnið að gera sér glaðan dag í Ráðherrabústaðnum – með hjálp skattborgarans.