Ríkisstjórnin hækkar lyfjakostnað sjúklinga um milljarð
Birtist í Mbl
Í umræðum á Alþingi í vor kom fram að ríkisstjórnin hefði uppi áform um að spara um einn milljarð króna á ári í lyfjakostnaði. Margir áttu erfitt með að trúa þessum boðskap, að mitt í margrómuðu góðæri yrði enn eina ferðina látið til skarar skríða gegn því fólki sem á við sjúkdóma að stríða. Nú hefur komið á daginn að alvara bjó að baki.
Um síðustu áramót hækkaði lyfjakostnaður sjúklinga talsvert. Þegar sú hækkun er lögð saman við þá breytingu sem nú er gerð á reglugerð um hlutdeild Tryggingastofnunar ríkisins í lyfjakostnaði mun hámarksgreiðsluhlutdeild sjúklinga hafa hækkað um 72,22% frá áramótum eða úr 1.800 krónum fyrir hvern lyfseðil í 3.100 krónur. Þetta á við um svokölluð B-lyf en í þeim flokki eru meðal annars lyf við hjarta-, astma-, psoriasis- og geðsjúkdómum. Hækkunin í svokölluðum E-lyfjaflokki er hlutfallslega minni eða 28,57% en í krónum nemur hækkunin eitt þúsund krónum fyrir hvern lyfseðil, fer úr 3.500 í 4.000 krónur. Hvað elli- og örorkulífeyrisþega snertir er hækkunin í báðum lyfjaflokkum minni, 58,33% fyrir B-lyf og 25% fyrir E-lyf. Á þessum hlutfallshækkunum var vakin athygli í greinargerð frá BSRB fyrir fáeinum dögum.
Sjúkdómar draga úr vinnugetu
Þegar litið er yfir þann lista sem hér var nefndur um lyf í B-flokki, sem hækka mest, þá eiga þeir sjúkdómar sem lyfjunum er ætlað að lækna eða halda í skefjum það sameiginlegt að þeir draga allir verulega úr vinnugetu og sumir eru þess eðlis að þeir eru mjög langvarandi. Árum og jafnvel áratugum saman á fólk við þá að stríða. Auk erfiðleika sem sjúkdómarnir skapa einstaklingnum á sál og líkama verður efnahagur þeirra og fjölskyldna þeirra iðulega bágbornari en hjá öðrum einfaldlega vegna þess að vinnugeta er ekki fyrir hendi. Ofan á allt þetta kemur síðan beinn tilkostnaður við sjúkdómana, lækniskostnaður og þar með að sjálfsögðu lyfjakostnaður sem vegur þungt.
Til þess að vega upp á móti tekjutapi hafa verið ýmsar reglur við lýði. Upp úr 1990 urðu miklar deilur þegar stjórnvöld fóru að draga úr stuðningi almannatryggingakerfisins og skerða þær hámarksgreiðslur sem hverjum og einum væri gert að borga. Nú er svo komið að engin slík hámörk eru fyrir hendi. Hins vegar er tekjulægsta fólkinu aðeins gert að greiða hlutfall af lyfjakostnaði sínum og við reglugerðarbreytinguna nú er tekjuviðmiðun endurgreiðslna TR vegna læknis- og lyfjakostnaðar hækkuð um kr. 200 þús. á ári og frádráttur vegna barna er aukinn og tekur nú til barna og unglinga til 18 ára aldurs í stað 6 ára áður. Þessi breyting er til framfara og henni ber að fagna. Hins vegar er rétt að vekja athygli á að fjölskyldur með samanlagðar tekjur hjóna yfir kr. 267 þús. á mánuði fá engan stuðning.
Hátt reitt til höggs
Ekki er öll sagan sögð með þessu. Með síðustu reglugerðarbreytingu eru nokkur lyf hreinlega tekin út úr tryggingakerfinu. Það á til dæmis við um lyf við sveppasýkingum, en það er sjúkdómur eða kvilli sem ágerist með aldri og hrjáir hann margt eldra fólk. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér hjá lyfsala nemur kostnaður við algengan þriggja mánaða skammt tæpum 23 þúsundum króna með þeim afslætti sem apótekið gæfi. Hér fæst hins vegar enginn afsláttur lengur frá almannatryggingum. Læknir sem ég leitaði til um upplýsingar sagði, að nú hefði það hent í fyrsta skipti á hans ferli að sjúklingur hefði gengið út af stofunni með þeim orðum að svo væri komið að hann hefði ekki ráð á læknismeðferðinni.
Á það hefur verið bent að lyfjakostnaður þjóðarinnar hafi hækkað á undanförnum árum og beri að sporna gegn því. Undir það skal tekið að mikilvægt er að ráðast í fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir sjúkdóma. Þá er einnig æskilegt að heilbrigðisstéttir geri sér grein fyrir því að sum lyf eru dýr og eðlilegt að það sé haft í huga þegar um tvo mismunandi kosti jafngóða er að ræða. Ekkert slíkt vakir hins vegar fyrir ríkisstjórninni. Hún beinir aðgerðum sínum hvorki í fyrirbyggjandi átt né að sparnaði og ráðdeild í kerfinu. Hún ætlar að láta fjárráð hvers og eins, sjúklinganna sem á lyfjum þurfa að halda, ákvarða hvaða lyf verði fyrir valinu ef þeir á annað borð hafa efni á því að neyta þeirra lyfja sem þeir nauðsynlega þurfa á að halda. Ætlunin virðist vera sú að hver og einn kaupi lyf eftir efnum og ástæðum, hinn efnaði kaupi gæðalyfin,en hinir kaupi það sem ódýrara er þótt gæðin séu minni. Hér er hátt reitt til höggs. Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar ganga út á að draga úr útgjöldum ríkisins vegna niðurgreiðslu á lyfjum um ríflega eitt þúsund milljónir króna á ársgrundvelli. Ljóst er að þetta verður gert á kostnað sjúklinga.