Fara í efni

RÍKISSTJÓRNIN HEFUR EKKI LEYFI TIL AÐ FARA FRÁ!


Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur að mínu mati ekki leyfi til að fara frá vegna Icesave málsins. Hvorki pólitískt né siðferðilega. Allar götur frá því undirritaður Icesave-samningur kom fyrir Alþingi síðastliðið vor hefur ríkisstjórnin sagt að hljóti hann ekki samþykki meirihluta þingsins segi stjórnin af sér.

Það var reyndar meira sagt. Í september fékk ég að heyra að ef ríkisstjórnin talaði ekki einum rómi í málinu þá myndi hún fara frá. Hvað gerði ég? Ég sagði af mér sem ráðherra í ríkisstjórn. Það gerði ég nauðugur. En hvers vegna? Til þess að koma í veg fyrir að ríkisstjórnin spryngi jafnframt því sem ég vildi mótmæla þeim vinnubrögðum sem leiddu okkur inn í það pólitíska öngstræti sem blasti við.

Ég hef alltaf litið svo á að þessi ríkisstjórn hafi ekki verið mynduð um tiltekna útgáfu af Icesave-samningi. Hún var mynduð til varnar og sóknar velferðarkerfinu í fyrirsjáanlegum efnahagsþrengingum. Mér fannst hvorki ég né nokkur annar hefði leyfi til annars en að reyna allt sem gerlegt væri til að hafa áhrif á niðurstöðuna í Icesave án þess að sprengja ríkisstjórnina. Ég hef það sterklega á tilfinningunni að þetta hafi einnig verið vilji yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar. Þverpólitískur vilji hennar. Jafnvel sjálfstæðismenn telja margir að sinn flokkur eigi að sinni ekki erindi í Stjórnarráðið. Barátta gegn Icesavesamningnum jafngildir EKKI baráttu gegn ríkisstjórninni, hvorki á meðal stjórnarliða né stjórnarandstæðinga.   

En hvað gerist nú? Eftir að málið kemur frá Alþingi liggja fyrir tugþúsundir undirskrifta um að samningurinn verði borinn undir þjóðina. VG hefur mjög eindregið talað fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu svo fremi sem tiltekið hlutfall kosningabærra manna sé því fylgjandi. Einmitt það er nú komið á daginn í þessu máli. Icesave er komið úr höndum Alþingis. Réttinn til að vísa málinu til þjóðarinnar hefur forseti lýðveldisins. Hann hefur undanfarna daga talað á lýðræðislegum og ábyrgum nótum. Í nýársávarpi sínu talar hann  um rétt þjóðarinnar. Hann vísar að sönnu til afleiðinga slíkrar ákvörðunar, að þær þurfi að hafa í huga. Að mínu mati verða að vera gríðarlega sterk rök fyrir því að hafna beiðni 55 þúsund kosningabærra manna - vel yfir 20%  - um þjóðaratkvæðagreiðslu; það þurfa að vera mjög afgerandi ástæður til að koma í veg fyrir að slík lýðræðisleg krafa nái fram að ganga. Sjálfur kem ég ekki auga á slík rök.

Nú heyrist á stöku stjórnarliða - félaga minna - að komi til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem málið yrði fellt þá félli ríkisstjórnin jafnframt. Þessu mótmæli ég harðlega. Hér er ekki talað fyrir mína hönd! Þeir sem svona mæla eru reiðubúnir að fórna vinstri stjórn vegna Icesave.

Ég vona að allir haldi ró sinni, horfi á málið af yfirvegun og spyrji sjálfa sig hvort sé mikilvægara, lýðræðið og félagslega þenkjandi ríkisstjórn eða sú útgáfa af Icesave sem nú liggur á borði forseta Íslands. Ég vona að menn geri sér grein fyrir því að það var norrænn velferðarfáni sem til stóð að hefja að húni í Stjórnarráði Íslands næstu fjögur árin. Það er enn verkefnið.