Ríkisstjórnin liggur undir grun – en fer málið fyrir dóm?
Hvorki er ég lögreglumaður né lögfræðingur og hef því ekki persónulega komið nálægt málum manna sem grunaðir eru um að hafa óhreint mjöl í pokahorninu. Þrátt fyrir þennan annmarka þykist ég vita hvernig brotamenn reyna að sigla milli skers og báru til að bjarga eigin skinni meðan á rannsókn stendur og allt þar til meðferð mála lýkur fyrir dómstólum. Og þannig finnst mér þingmenn Framsóknarflokksins einmitt haga sér þessa dagana.
Magnús segir veðurfregnirÞað var til að mynda fróðlegt að hlusta á þingflokksformann Framsóknarflokksins, Magnús Stefánsson, tjá sig á morgunvakt RÚV í morgun. Hann gat ekki svarað einni einustu spurningu hreint út – nema þegar hann var spurður um hvað hann væri að gera vestur á Ísafirði. Hann greindi samviskulega frá erindinu og sagði meira að segja í óspurðum fréttum að það væri glampandi sól fyrir vestan, í fæðingarbæ forsetans, og má það til sanns vegar færa, sbr. heimasíðu Veðurstofunnar. En allt sem við kom aðgerðum ríkisstjórnarflokkanna í fjölmiðlamálinu var þoku hulið í höfði Magnúsar þótt merkja mætti örlitlar vísbendingar um að hann væri ef til vill að komast af harðasta afneitunarstiginu. Og þegar fréttamaðurinn nefndi mögulegt afbrot hans og félaga hans, brot á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins vegna hegðunar þeirra í fjölmiðlamálinu og öllu sem því hefur fylgt, gat Magnús ekki tekið sér meint afbrot í munn. Hann sagði hins vegar nokkrum sinnum um meint brot: “Þetta sem þú nefnir”. Sannarlega vel að verki staðið hjá Magnúsi og mundi að líkindum teljast nokkuð fagmannlegt við yfirheyrslu hjá lögreglunni. Sjálfstæðismenn standa sig hins vegar miklu betur. Þeir eru hinir bröttustu og þverneita öllu.
Hvenær heggur maður mann og hvenær ekki?Mér finnst sök ríkisstjórnarflokkanna liggja í augum uppi. Ríkisstjórnin er að reyna að svipta þjóðina réttinum til að ganga til þjóðaratkvæðis og finnst mér ekki miklu breyta um afbrotið þótt hún mundi vilja bæta ráð sitt með því að skila réttinum aftur. Mér finnst ríkisstjórnin í raun í sömu stöðu og þjófur sem er í miðjum klíðum í innbroti en lögreglan á leiðinni. Og hvað eru þeir kallaðir sem stela, hvort svo sem þeir eru nú gómaðir á staðnum eða nást síðar meir? Þeir kallast víst þjófar og breytir þá engu þótt þeir skili ránsfengnum til baka þegar upp kemst. Og þeir eru dregnir fyrir dómstólana og fá sinn dóm.
En hvað með ríkisstjórnarflokkana? Segjum nú sem svo að ríkisstjórnargengið splundrist í sundur, er þá réttlætanlegt að Framsóknarflokkurinn verði áfram í svokallaðri “samfélagsþjónustu” á skilorði. Um Sjálfstæðisflokkinn hirði ég ekki að sinni þótt auðvitað eigi sama við í hans tilviki. Um svona nokkuð – um hreina sýkn saka eða þá “samfélagsþjónustu” í æðstu embættum - eru álitsgjafar þegar farnir að fabúlera út og suður og er á þeim að skilja að ekkert sé sjálfsagðara, svo fremi að Samfylkingin komi að myndun nýrrar ríkisstjórnar. Svona þankagangur finnst mér rotinn og ólýðræðislegur. Mér ofbýður að heyra suma þá, sem hafa með fullum rétti krafist þess að ríkisstjórnin rændi þá ekki þjóðaratkvæðinu um fjölmiðlalögin, vera nú byrjaða að biðla til forsetans um að hann svipti þjóðina þeim rétti að ganga til alþingiskosninga vilji forsætisráðherra beita þingrofsréttinum. Álitsgjafarnir eru farnir að benda á að forsetinn geti neitað Davíð Oddssyni um þingrof! Þetta þykir mér vægast sagt ósvífinn viðsnúningur gagnvart lýðræðinu þegar menn, í ljósi stigmagnandi böls á stjórnarheimilinu, eygja von um aðkomu Samfylkingarinnar að stjórn landsins. Ristir virðingin fyrir lýðræðinu virkilega ekki dýpra en þetta á sumum bæjum?
Þjóðólfur