RÍKISSTJÓRNIN REYNIR AÐ KAUPA SÉR VINSÆLDIR
Birtist í Morgunblaðinu 13.09.05.
Ekki er hægt að áfellast þá fyrir að gleðjast, forsvarsmenn aðskiljanlegrar starfsemi, sem eygja að fá hlutdeild í söluandvirði Símans. Málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar í þessu samhengi er hins vegar ekki geðfelldur. Minnir á þegar reynt er að kaupa menn til fylgis við óvinsælar ákvarðanir. Sala Símans var nefnilega óvinsæl. Fólk skynjaði að þar væri ekki búhyggindum fyrir að fara. Ítrekað kom fram í skoðanakönnunum, að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar var andvígur sölunni, þótt Vinstrihreyfingin grænt framboð væri eini stjórnmálaflokkurinn sem berðist gegn einkavæðingunni á öllum stigum ferlisins.
Þegar þjóðin er hins vegar nú spurð hvort hún vilji styrkja geðfatlaða, eða bæta vegasamgöngur, efla hag Árnastofnunar eða Landhelgisgæslunnar, þá svara menn því almennt að slíkum ráðstöfunum séu þeir fylgjandi. Þetta segir sig nánast sjálft. En á þetta reynir ríkisstjórnin að spila.
Á undanförnum dögum höfum við orðið vitni að ótrúlegu sjónarspili. Ríkisstjórnin kemur færandi hendi með hvern milljarðinn á fætur öðrum og stærir sig óspart af afrekum sínum. Með sölu Símans hefur hún hins vegar engin afrek unnið, og enn síður er það afrek að ráðstafa söluandvirðinu. Það er eftirleikurinn sem er erfiðari.
Staðreyndin er að sjálfsögðu sú, að frá þjóðinni hefur verið seld mikil gullkvörn. Hún er seld einu sinni. Síðan er það búið spil. Gullkvörnin heldur hins vegar áfram að mala en nú fyrir nýja eigendur.
Síminn er geysilega stöndugt fyrirtæki. Í fyrra greiddi fyrirtækið í skatta um hálfan milljarð króna. Skatttekjur ríkisins af Símanum blikna hins vegar þegar arðgreiðslurnar eru annars vegar. Síminn hefur verið gerður upp með rúmlega tveggja milljarða kr. hagnaði undanfarin ár eftir skatta. Síminn hefur því skilað miklu í ríkissjóð. Hann hefur greitt 30% arð af liðlega 7 milljarða kr. hlutafé að nafnvirði, sem gerði t.d. á síðasta ári 2.110 millj. kr. og af því fékk ríkið 99%. Á þessu ári námu arðgreiðslurnar rúmum sex milljörðum eða sex þúsund, þrjúhundruð og þrjátíu milljónum króna, allt peningar sem runnu í ríkissjóð.
En þetta segir ekki alla söguna. Það segir kannski enn meiri sögu að Síminn skilaði frá rekstri í fyrra 7.400 millj. kr. tæpum. Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir voru nákvæmlega 7.381 millj. kr. Veltufé frá rekstri var 6.800 millj. kr. Þarna er því geysileg fjármunamyndun á ferðinni og hrikalegt til þess að hugsa að ríkisstjórnin skuli hafa tekið frá þjóðinni slíka gullkú.
En þetta verður svo gott fyrir neytendur er þá svarað á móti. En er það svo? Ég held að mjög hollt sé að minna á, að áður en Síminn var gerður að hlutafélagi á tíunda áratugnum, voru símtöl hér á landi ódýrari en nokkurs staðar á byggðu bóli. Landssími Íslands var í fremstu röð símastofnana í heiminum hvað varðar tækni, þjónustu og verðlagningu. Þetta er óvéfengjanleg staðreynd. Eins má ætla að símkostnaður eigi enn eftir að lækka með betri tækni. Forsenda þeirrar staðhæfingar að markaðsvæðingin muni koma neytendum til góða er væntanlega sú, að til staðar sé - eða verði til, samkeppnismarkaður. Er líklegt að svo verði? Síminn hefur yfirburði og mikið forskot fram yfir alla hugsanlega samkeppnisaðila. Auðvitað á tíminn eftir að leiða í ljós hver framvindan verður. En eins og sakir standa verður ekki annað séð en að hér stefni í einokun, í besta falli fákeppni.
Ég efast um að nokkur maður trúi því að kaupendur Símans séu í góðgerðarstarfsemi; þeir hafi einfaldlega ekkert haft við 66,7 milljarða að
Þetta eru vangaveltur, sem ekki eiga upp á pallborðið hjá ríkisstjórninni. Ég vona hins vegar, að kjósendur sjái í gegnum málatilbúnað hennar. Við eigum nefnilega ekki að láta ríkisstjórnir komast upp með að kaupa sér vinsældir á fölskum forsendum.