Fara í efni

RÍKISSTJÓRNIN RÝFUR SÁTT UM RÍKISÚTVARPIÐ

Birtist í Morgunblaðinu 05.04.06.
"Það er merkilegur veruleiki að í byrjun 21. aldar er allgóð samstaða frá vinstri til hægri í stjórnmálum um að starfrækja ríkisútvarp. Nánast ágreiningslaust hefur verið að kosta reksturinn með skattpeningum. Jafnframt hafa flestir talið óhjákvæmilegt að leyfa Ríkisútvarpinu þar að auki að afla tekna á samkeppnismarkaði auglýsinga. Auglýsingatekjurnar hafa þó einna helst verið ágreiningsefni varðandi opinberan útvarpsrekstur. Þó að sú stefna gangi á svig við almennar samkeppnisreglur verða keppinautarnir á markaðnum að sætta sig við að að annar kostur er ekki í stöðunni. Að baki þessum rekstri og markmiðum hans liggja menningarleg og tilfinningaleg sjónarmið sem rétt er að virða."

Fyrrum forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins talar

Þetta eru upphafsorðin í leiðara Þorsteins Pálssonar, ritstjóra Fréttablaðsins, fyrrverandi forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, föstudaginn 31.mars sl.. Þorsteinn Pálsson  fjallar í framhaldinu um mismunandi rekstrarform stofnana og fyrirtækja og bendir á að starfsemi sem fjármögnuð er með skattfé almennings verði að lúta almennum reglum, sem tryggja gegnsæi og og jafnræði og koma í veg fyrir misnotkun skattfjárins.
"Nú ætlar ríkisstjórnin að víkja til hliðar öllum almennum reglum sem gilda um meðferð skattpeninga að því er varðar rekstur Ríkisútvarpsins. Þar á meðferð sktattpeninga að lúta reglum einkaréttarins án þess að skilyrði hans um sjálfsaflafé sé fyrir hendi... Rökin fyrir því að reka Ríkisútvarp með skattpeningum jafnframt þátttöku á samkeppnismarkaði auglýsinganna hanga vissulega á hálmstrái eða í mesta lagi á rótarhvönn. Þau fela í sér svo verulegt frávik frá almennum leikreglum. Ríkisstjórnin er að kippa þessu haldi í burtu. Hún hefur vissulega þingmeirihluta til þess að koma málinu fram. En hætt er við því að hún setji með því móti í uppnám framtíðarsátt um ríkisrekið útvarp. Það eru einfaldlega of mikil menningarverðmæti í húfi til að sú áhætta sé réttlætanleg."

Ríkisstjórnin rýfur sáttina

Leiðari Þorsteins Pálssonar byggir á glöggum skilningi og pólitískri prinsippfestu. Hann hittir einfaldlega naglann á höfðuðið. Það er rétt að skírskota til breiðrar pólitískrar sáttar þegar Ríkisútvarpið er annars vegar. Það er líka rétt að auglýsingatekjurnar hafi helst farið fyrir brjóstið á samkeppnisaðilum og sennilega einnig hægri kantinum í stjórnmálum. Vinstri menn hafa haldið uppi málstað Ríkisútvarpsins, hvað sem á hefur dunið, jafnvel þótt mörgum hafi oft þótt talsverð hægri slagsíða á stofnuninni, ekki síst  í seinni tíð. Nú er það hins vegar að gerast að sáttinni er sagt upp bæði til hægri og vinstri.
Það er mikill misskilningur hjá þeim forsvarsmönnum Ríkisútvarpsins, sem tala ákaft fyrir hlutafélagavæðingu, að stofnunin eigi vísan stuðning við skattheimtu eftir að hún hefur verið sett í umgjörð markaðsfyrirtækis og fjarlægð þjóðinni, eiganda sínum. Valið um að vera ríkisstofnun eða fyrirtæki á markaði er nefnilega raunverulegt val, og það á að líta á það sem slíkt. Ef menn vilja vera háeff þá gera menn það og axla þau réttindi og þær skyldur sem því fylgja. Það er einfaldlega yfirlýsing um að halda eigi með starfsemina inn á markaðstorgið.
Haft hefur verið eftir fomanni menntamálanefndar Alþingis, Sigurði Kára Kristjánsssyni, að í fjáraukalögum verði hugað að fjármagni til RÚV hf í tengslum við þá lagabreytingu sem nú stendur fyrir dyrum. Ætlar frjálshyggjumaðurinn Sigurður Kári, sem að eigin sögn vill selja Ríkisútvarpið, nú að tala fyrir auknum fjárframlögum skattgreiðanda til Ríkisútvarpsins? Hverjir munu styðja hann í því efni? Fyrir mitt leyti myndi ég ekkert síður vilja horfa til Barnaspítala Hringsins. Það er rétt sem Þorsteinn Pálsson segir. Ríkisstjórnin er að setja "í uppnám framtíðarsátt um ríkisrekið útvarp."