Fara í efni

RÍKISSTJÓRNIN STYÐJI JULIAN ASSANGE


Birtist í Fréttablaðinu 25.11.19.
Síðastliðið vor fór breska lögreglan inn í sendiráð Ekvadors í London og handtók þar Julian Assange stofnanda Wikileaks fréttaveitunnar, þar sem hann hafði haft hæli um árabil.

Skömmu síðar fékk ný stjórn Ekvador sérstaka fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og nú vilja Bandaríkjamenn fá Assange framseldan til Bandaríkjanna, en þar á hann yfir höfði sér 175 ára fangelsisdóm fyrir “njósnir”. Wikileaks hefur sem kunnugt er upplýst okkur um stríðsglæpi og ofbeldisverk sem ríki og einstaklingar hafa framið sem ella hefðu farið leynt. Nefni ég þar sérstaklega skjöl sem sýna fram á hryllilega stríðsglæpi í Írak og Afganistan svo og í árásarhernaði NATÓ í Líbíu.
Þau skjöl voru frá stjórnartíð Obama forseta og Hillary Clinton, utanríkisráðherra BNA, sem skýrir væntanlega hvers vegna Julian Assange fær hvorki stuðning frá Repúblikönum sé Demókrötum.

Á Íslandi varð Wiklieaks á allra vörum árið 2009 þegar birt voru bankaskjöl sem vörpuðu ljósi á dekkri hliðar bankahrunsins íslenska og síðan aftur nú í svikamálum Samherja. Þessa dagana hefur Wikileaks, sem Íslendingurinn Kristinn Hrafnsson nú veitir styrka forystu, upplýst um misbeitingu valds innan OPCW, þeirrar alþjóðastofnunar sem hefur það verkefni að upplýsa um beitingu eiturefna í hernaði. 

Nú er spurning hvað ríkisstjórn Íslands hyggst gera, koma í vörn fyrir Julian Assange og Wikileaks opinberlega eða slást í för með þeim sem vilja hefta gagnrýna fjölmiðla.
Það var óneitnalega slæmt að horfa upp á aðstoð stjórnvalda við bandarísku lögregluna í sumar við að þrengja að Julian Assange, og það skýrt sem hvert annað lögreglusamstarf, þegar það í raun var pólitík og það ljót pólitík. Það var líka undarlegt að verða vitni að því að ríkisstjórnin skyldi kæra Seðlabankann til lögreglunnar fyrir að koma upplýsingum á framfæri við fjölmiðil. Nú hefur komið á daginn að rík ástæða var fyrir að veita þær upplýsingar.
En nú er lag fyrir ríkisstjórnina að reka af sér slyðruorðið.