Fara í efni

RÍKISSTJÓRNIN VIRÐI VILJA ÞJÓÐARINNAR OG LOKI Á FJÁRHÆTTUSPIL


Birtist í Fréttablaðinu 20.05.20.
Hver hefði trúað því í byrjun árs að hægt væri að loka Bandaríkjunum í bókstaflegri merkingu; að hið sama gæti gerst annars staðar, löndum væri lokað eða þau lokuðust eins og gerðist hjá okkur. Samt var þetta nú allt hægt enda markmiðið að vernda líf og heilsu.

Fram hafa komið í fjölmiðlum samtök sem nefna sig Samtök áhugafólks um spilafíkn, SÁS. Þau hafa skýrt frá því, sem stundum áður hefur verið haft á orði, en nú á óvenju skilmerkilegan hátt, hvernig spilafíkn leiki einstaklinga og fjölskyldur, valdi vanlíðan og þunglyndi, leiði til upplausnar fjölskyldna, ómældrar óhamingju og fjártjóns, svo miklu að þeir sem ánetjast fíkninni missi iðulega allar eigur sínar ef þá ekki einnig eignir annarra sem spilafíklinum standa nærri.

Er ekki nóg sagt með þessu til að allir skilji að við erum að tala um alvarlegt heilsufarsvandamál engu minna en Covid veiran veldur þeim sem fyrir verða; heilsufarsvandamál sem kemur okkur öllum við?

Þjóðinni þykir það greinilega. Í stórmerkilegri skoðanakönnun á vegum Gallup, sem birt var fyrir fáeinum dögum, kom fram að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vill að spilakössum og spilasölum verði lokað til frambúðar. Samtök áhugafólks um spilafíkn hafa sagst hafa skrifað ríkisstjórninni og óskað eftir viðræðum um þetta efni. Það mun hafa verið gert áður en leyfi var gefið fyrir að heimila þeim sem reka spilakassa að opna þá að nýju.

Svo er að skilja að samtökin hafi ekki enn verið virt svars. En nú þegar þjóðin hefur svarað fyrir sitt leyti er þá ekki kominn tími til að ríkisstjórnin bregðist við og fari að almannavilja: Grípi til ráðstafana til að vernda líf og heilsu fólks sem er ógnað með tilvist vélbúnaðar sem lævíslega hefur verið hannaður og síðan komið fyrir í sjoppum, á bensínstöðvum og svo í spilasölum.

Samkvæmt skoðanakönnunum taka nánast engir gilda þá skýringu sem haldið hefur verið að okkur að fólk fari með aleigu sína í spilakassa til að styðja “gott málefni”. Fólkið sem reiðir fram milljarðana gerir það flest vegna þess að það hefur ánetjast sjúklegri fíkn. Það er samfélagsins að frelsa það undan henni.
https://www.frettabladid.is/skodun/rikisstjornin-virdi-vilja-thjodarinnar-og-loki-a-fjarhaettuspil/