RÍKISÚTVARPIÐ 75 ÁRA
Í dag eru 75 ár frá stofnun Ríkisútvarpsins. Því miður hafði ég ekki tök á að fylgjast með sjónvarpsþættinum sem sýndur var í kvöld af þessu tilefni. Hins vegar heyrði ég í Jóni Múla Árnasyni í þætti Ævars Kjartanssonar, sem útvarpað var uppúr hádeginu. Þarna var Ævar með fimm ára gamalt brot úr lengra viðtali við Jón Múla frá 70 ára afmæli RÚV. Gaman var að heyra í báðum þessum mögnuðu útvarpsmönnum, Ævari og Jóni Múla og við hæfi að heyra Jón Múla beina nokkrum beinskeyttum spurningum að áhugafólki um einkavæðingu Ríkisútvarpsins.
Jón Múli ræddi um menningarlegt hlutverk Ríkisútvarpsins og þar á meðal um varðveisluhlutverkið; í þessari gamalgrónu stofnun hefðu verið varðveittar menningarminjar, sem mikil áhöld væru um að hefðu varðveist ef fallvölt gróðafyrirtæki hefðu haft varðveisluhlutverkið á hendi. Inn á þetta kemur Ólafur Páll Gunnarsson, hinn kunni útvarpsmaður á Rás 2 – umsjónarmaður Rokklands með meiru – í aldeilis stórgóðu viðtali í nýútkomnu Stúdentablaði.
Málflutningur Ólafs Páls sver sig rækilega í ætt við þær hefðir sem gert hafa Ríkisútvarpið að stórveldi. Hann sýnir sögunni virðingu en er jafnframt opinn fyrir nýjum tímum, víðsýnn og vill nema ný lönd. Ólafur Páll minnir okkur á menningarlegt hlutverk Ríkisútvarpsins í víðu samhengi: " Fólk talar oft um að ríkið eigi ekki að gera þetta og hitt. Sjálfur er ég t.d. voða lítill kommúnisti en þó er ég þeirrar skoðunar að það séu ákveðin þjóðareinkenni Íslendinga sem ber að varðveita. Við höfum t.d. tekið ákvörðun um að reyna að vera með gott skólakerfi og gott heilbrigðiskerfi. Við erum með Þjóðleikhús, við eigum íslenskan dansflokk o.s.frv. Mér finnst Ríkisútvarpið vera hluti af þessu kerfi."
Dægurhljómlist mikilvægur hluti menningarinnar - Rás 2 hefur staðið vaktina
Undir þetta tek ég með Ólafi Páli. Eins og hann segir síðar í viðtalinu þá eru "vissir hlutir sem gera okkur að þjóð," og hann bendir réttilega á að þar sinni Rás 2 veigamiklu hlutverki. Ef ekki væri fyrir hennar tilstilli hefðum við takmarkaðri aðgang að íslenskum listamönnum og þeir að okkur, ekki síst þegar þeir hafa verið að stíga sín fyrstu skref á listabrautinni. Drepum aftur niður í viðtalinu við Ólaf Pál Gunnarsson: "Rás 2 sinnir menningarhlutverkinu með því að spila dægurtónlist sem er að miklu leyti íslensk. Ég trúi því ekki að árið 2005 – á tímum Sigurrósar og Bjarkar - sé til fólk sem segir: "Lokum bara þessari Rás 2. Hún spilar ekki annað en nýja íslenska tónlist og er eina stöðin sem spilar Björk, Sigurrós, Megas, Bubba og Hörð Torfa. Hún er þar að auki eina útvarpsstöðin á rokklandinu Íslandi sem varðveitir íslenska dægurtónlistarsögu með því að hljóðrita hátt í 200 hljómsveitir á ári. Lokum þessu bara!" Ímyndum okkur að Rás 2 hyrfi af vettvangi. Þá væru þeir einu sem sæju um tónlist fjölmiðlar í einkaeigu. Það væri einfaldlega hræðilegt – ég tala nú ekki um í jafnlitlu landi og við búum í. Ríkisútvarpið á að mínu mati að halda uppi ákveðnu viðmiði. Það á að vera betra útvarp en önnur og við eigum að gera öðruvísi hluti en aðrir. Við eigum ekki endilega að einbeita okkur að hlutum sem hægt er að græða á einn, tveir og þrír. Dægurtónlist – popp og rokk – er stór hluti af menningarsögu okkar. Við getum verið stolt af því sem við erum að gera. Við á Rás 2 erum a.m.k. stolt af okkar fólki og ekki síst framlagi okkar, t.d. tónleikasafninu okkar. Ef þú vildir heyra útgáfutónleika Sigurrósar frá 1999 þá gæti ég einfaldlega náð í þá. Við eigum allt sem við tökum upp; Músiktilraunir 15 ár aftur í tímann, Popp í Reykjavík, Airwaves frá 2000 og hitt og þetta. Annað dæmi er að um daginn voru liðin tíu ár frá snjóflóðinu á Flateyri. Þá var haldin minningarathöfn og fjölmiðlar vildu auðvitað gera málinu góð skil. Þá þurfti Stöð 2 að fá lánað myndefni frá Sjónvarpinu, þó að þeir hafi auðvitað fjallað um sama mál á sínum tíma. Þeir geta eflaust geymt myndefni, rétt eins og við, en það er ekki svo mikið hægt að græða á því í krónum talið. Það er kannski ekki heldur þeirra hlutverk. RÚV á aftur á móti að gæta þessara hluta...Hlutverk frjálsra fjölmiðla er að græða peninga. Geri þeir það ekki er þeim lokað. Okkar hlutverk er einfaldlega allt annað."