Fara í efni

ROFIN SÁTT UM RÚV ?

Ríkisstjórnin leggur sem kunnugt er ofurkapp á að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Öllum öðrum málum er vikið til hliðar á Alþingi til að svo megi verða.
Þetta er þriðja stjórnarfrumvarpið sem fram hefur komið í þessa veru. Fyrst átti að gera Ríkisútvarpið að sameignarfélagi. Það frumvarp reyndist meingallað og var á endanum dregið til baka. Síðan kom fram frumvarp um að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi. Það reyndist einnig meingallað og var dregið til baka eftir langar umræður. Þá kom núverandi frumvarp um að RÚV yrði svokallað opinbert hlutafélag. Þetta frumvarp er sama markinu brennt og hin og er meingallað. Að þessu sinni hefur ríkisstjórnin reynst ófáanleg til að draga frumvarpið til baka þótt um það sé mikið ósætti.

Með þessum vinnubrögðum eru að verða kaflaskil í sögu Ríkisútvarpsins. Um þá merku menningarstofnun hefur verið breið samstaða og almenn sátt allar götur frá því Ríkisútvarpið var stofnað árið 1930. Núverandi ríksstjórn hefur nú sýnt að hún er reiðubúin að rjúfa þessa sátt.

Stjórnarandstaðan á Alþingi hefur leitað eftir málamiðlun með tvennum hætti. Í fyrsta lagi hefur það verið boðið að gerð yrði lágmarksbreyting á lagarammanum um Ríkisútvarpið en hinu frestað sem grundvallarágreiningur er um. Í öðru lagi hefur verið sett fram það tilboð að greitt yrði fyrir því að frumvarpið kæmi skjótt til afgreiðslu á þingi en lögin öðluðust hins vegar ekki gildi fyrr en að afloknum kosningum. Þar með gæfist nýrri ríkisstjórn og nýjum stjórnarmeirihluta ráðrúm til að endurskoða málið sem þá kæmi einnig til umræðu í kosningabaráttunni. Þessi ákvörðun fengi þannig lýðræðislegt vægi.

Ríkisstjórnin hefur til þessa slegið á allar tilraunir til samkomulags og sátta og hamrar á því að "lýðræðislegur vilji" eigi að ná fram að ganga. Þar er átt við vilja naums meirihluta á Alþingi að breyta rekstrarfyrirkomulagi Ríkisútvarpsins til framtíðar. Auðvitað er gangur þingræðisins sá að meirihlutavilji á þingi skal ráða. Hér er hins vegar um það að ræða að viðhalda breiðri samstöðu og þjóðarsátt. Slíkt getur kostað vinnu og tekið nokkurn tíma en það er engu að síður sú leið sem til dæmis Bretar fara með sitt merka útvarp, BBC. Með reglulegu millibili er starfshópi á vegum stofnunar og stjórnvalda falið að kanna og ræða hvort og þá á hvern hátt breyta þurfi fyrirkomulagi og innviðum í takt við breytta tíma. Þetta er gert reglulega og menn gefa sér góðan tíma. Með þessum vinnubrögðum hefur Bretum tekist að varðveita og viðhalda því besta í arfleifð þessarar merku stofnunar.

Langar umræður um frumvörp ríkisstjórnarinnar um Ríkisútvarpið hafa í tvígang forðað þjóðinni frá alvarlegum slysum. Nú er eina ferðina enn reynt að koma vitinu fyrir ríkisstjórnina. Við förum inn í helgina með sáttatilboð stjórnarandstöðunnar á borðinu. Það er ríkisstjórnarinnar að svara því hvort hún taki þessu tilboði eða hvort henni er virkilega alvara að slá á útrétta sáttahönd og rjúfa þannig sáttina um Ríkisútvarpið.