Fara í efni

RÖKFASTUR KARL



Karl Kristinsson, prófessor í sýklafræði, ritaði um helgina fróðlega grein í Morgunblaðið  sem síðan hefur einnig birst á vef Bændablaðsins: https://www.bbl.is/frettir/frettir/professor-i-syklafraedi-vid-hi-innflutningur-a-fersku-kjoti-gaeti-valdid-oafturkraefum-afleidingum/20634/
Þarna kemur fram að Íslendingar eru betur settir en allir aðrir hvað varðar sýkingar af völdum sýklalyfja-þolinna baktería. Ég hvet alla til að kynna sér grein Karls sem varðar hagsmuni okkar allra nú og til framtíðar.

Karl var gestur þriðjudags Kastljóss Ríkissjónvarpsins ásamt Ólafi Stephensen, sem fyrir hönd hagsmunaðila í innflutningi talaði nú sem fyrri daginn fyrir óheftum innflutningi á grænmeti og hráu kjöti. Á honum var svo að skilja að allur vandi væri úr sögunni ef eftirlit væri fyrir hendi. Í þættinum vitnaði hann í ónafngreinda sérfræðinga og spurði hvort Karl vildi banna ferðamönnum að koma Íslands því vitað væri að þeir gætu borið með sér hættulegar bakteríur.

Allt hefur þetta heyrst áður þótt ekki sé eins mikill vindur í mönnum og stundum fyrr. Karl svaraði því til, rökfastur sem endranær, að okkur bæri að gera það sem í okkar valdi stæði til að verjast hættulegum sýkingum. Meira gætum við að sjálfsögðu ekki gert! Þar talaði maður sem hefur yfirburða þekkingu á þessum málum enda hefur hann stundað rannsóknir á þessu sviði í yfir þrjá áratugi.

Með fullri virðingu fyrir Ólafi Stephensen þá er starf hans fólgið í hagsmunagæslu fyrir innflytejendur hrávöru.

Karl Kristinsson hefur á hinn bóginn engra hagsmuna að gæta annarra en að standa vörð um almannahag. Og ég leyfi mér að bæta við, heilbrigða skynsemi sem stundum er kölluð svo.

 Í seinni tíð hefur hún átt erfitt uppdráttar - skynsemin það er að segja - í heimi hagsmuna og kreddustjórnmála.