RÖKHUGSUÐUR OG MAÐUR MÁLFRELSIS GEFUR ÚT BÓK
Hugtakið rökhugsuður er ekki nýtt af nálinni. Hins vegar eru á okkar tímum rökhugsuðir allt of fágætir. Þorsteinn Siglaugsson heimspekingur er hins vegar einn slíkur.
Í gær sótti ég kynningu á nýrri bók eftir Þorstein sem ber heitið FRÁ ÓVISSU TIL ÁRANGURS - Skýr hugsun og listin að taka betri ákvarðanir.
Bókina keypti ég en hef ekki enn lesið í henni að gagni þótt ég sé byrjaður að fletta. En þótt ég eigi eftir að kynnast bókinni betur þekki ég vel til höfundarins. Og það af góðu einu.
Framlag Þorsteins til þjóðmálaumræðunnar, ekki aðeins hér á landi heldur hefur hann einnig látið til sína taka erlendis, er mikilvægt. Hann var fyrsti formaður Málfrelsisfélagsins og einnig einn helsti hvatamaður að stofnun þess félags og vefmiðilsins Krossgötur, https://krossgotur.is/
Mér þótti vænt um það að Þorsteinn skyldi minnast bróður míns Björns Jónassonar á bókarkynningunni í gær. https://www.ogmundur.is/is/greinar/bjorns-jonassonar-minnst .
Þorsteinn sagði Björn hafa verið sér mikil hvatning um stofnun félags um málfrelsi enda hefði hann talið að málfrelsi væri mál málanna á tímum vaxandi ritskoðunar og aðþrengds tjáningarfrelsis. Þessi mál ræddi Þorsteinn hins vegar ekki í þaula á kynningunni í gær heldur hélt sig við mikilvægi rökhugsunar. Þetta tvennt á að sjálfsögðu samleið því án málfrelsis fær rökhugsun ekki þrifist.
--------------------------------------------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.