RÖKRÉTT VIÐBRÖGÐ KATRÍNAR
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 12/13.10.19.
Niðurstaða er vonandi að fást í hin skelfilegu Guðmundar- og Geirfinnsmál þótt enn sé ekki ljóst hverjar lyktir verða. Það er komið undir Alþingi, sem fer með löggjafar- og fjárveitingavald, en í hendur þess er nú komið þingmál frá hendi forsætisráðherra. Einnig er sú leið opin að dómstólar kveði upp endanlegan dóm um skaðabætur.
Hver hefur verið gangurinn í þessu máli?
Árum saman var það látið danka og öllum tilraunum til endurupptöku hafnað. Á árinu 2011 er hins vegar ákveðið af hálfu framkvæmdavaldsins að láta fara fram athugun á málinu og skyldi sjónum beint sérstaklega að framgöngu ákæruvaldsins og lögreglu. Með öðrum orðum, rannsókn skyldi fara fram á rannsókninni.
Niðurstaða þeirrar ítarlegu vinnu sem í var ráðist var afdráttarlaus. Fram komnar játningar voru taldar óáreiðanlegar, knúnar fram með harðræði og ofbeldi.
Næsta skref var að breyta lögum, styrkja heimildir til endurupptöku allra þessara mála og tryggja réttindi aðstandenda þannig að unnt væri að taka málin fyrir að nýju í Hæstarétti. Að þessu afloknu hófst endurupptökunefnd handa og komst að þeirri niðurstöðu að einmitt þetta bæri að gera. Þótti mér vera rangt af nefndinni að undanskilja einn einstakling að þessu leyti þar sem þar var einnig um að ræða harðræði og þvingaðan og af þeim sökum falskan framburð.
Málið fór fyrir Hæstarétt sem komst að sömu niðurstöðu og endurupptökunefnd og starfshópur Innanríkisráðuneytisins um að játningar hefðu verið ómarktækar og því hvorki neinar forsendur fyrir hinni löngu einangrunarvist, sem í sjálfu sér var mannréttindabrot, né áralangri fangelsisvist.
Skipaður ríkislögmaður í málinu, sem greinilega taldi stefna í að málið færi fyrir dóm, hófst nú handa við að skrifa greinargerð því til undirbúnings. Þar kvað við herskáan tón.
Við svo búið ákvað forsætisráðherra að koma málinu til Alþingis en með öðrum áherslum en þeim sem var að finna í stríðsskjali skipaðs ríkislögmanns. Í þingmáli forsætisráðherra er kveðið á um ábyrgð ríkisins og bótaskyldu.
Í framvindu þessa máls hefur allar götur frá því að lagt var upp í þessa vegferð legið ákveðinn þráður sem mér hefur þótt Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, augljóslega hafa viljað halda vel um svo að sanngjörn niðurstaða mætti nást. Í þeim anda var talað fyrir þingmálinu á Alþingi.
En nú byrjar ballið. Þingmenn sem vilja geta gagnrýnt án ábyrgðar fyllast skelfingu við að fá málið í sínar hendur, segja óeðlilegt að ræða það í þingsal. Gott og vel. Til stóð að ræða það í þingnefnd en þingmönnum er vitaskuld í sjálfsvald sett hvað þeir segja í þingsal.
Sumir telja að málið hefði átt að fara beint til dómstóla og láta dómara kveða upp úr um niðurstöðu. Sú leið er opin og fær og ekki af neinum tekin. Einnig getur þingið tekið ákvörðun um breytingar á bótagreiðslum. Ef engin verður niðurstaða Alþingis - önnur en að lögfesta bótaskylduna sem þingið hlýtur að gera - eða niðurstaða Alþingis er talin óásættanleg er einboðið að fá dómsúrlausn.
Eftir stendur í mínum huga þessi spurning: Eftir að málið fór í þann farveg, sem viðtæk sátt var um, þ.e. að reyna að ljúka því með sáttargjörð við alla viðkomandi aðila, sem síðan ekki gekk eftir, hvað gat Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra þá annað gert en nákvæmlega það sem hún gerði, nefnilega að leita eftir afstöðu Alþingis til málsins og fá skýr svör?
Svari hver fyrir sig.