KANAÚTVARP IN MEMORIAM
Það gladdi mitt litla hjarta þegar slökkt var á Kanaútvarpinu, ekki síst vegna þess að ég hafði sjálfur rofið þessa sömu stöð fyrir rúmum 30 árum og kallaður fyrir saksóknara fyrir vikið. Ekki þótti ástæða að sakfella okkur sem að aðgerðum þessum stóðu, enda höfðu valdhafar illan málstað að verja. Ef einhverjir halda enn að kaninn hafi verið hér til þess að verja okkur hér á skerinu, þá ættu þeir að gleyma því eða í það minnsta að minnast ekki á það. Það er táknrænt að á sama tíma og kanar loka útvarpi sínu birtast fréttir af hlerunum. Faðir minn sem var forystumaður í Dagsrún 1961 - aðal trúnaðarmaður verkamanna við höfnina, sterkasta vígi grasrótarinnar - hefur vafalaust verið hleraður. Mín tilfinning er sú að hleranir hafi haft minna að gera með útfærslu landhelginar en þeim mun meira að gera með harða baráttu Dagsbrúnarmanna með Hannes Stephensen (sem reyndar hætti þetta ár), Eðvarð, Gvend Jaka og fleiri eldhuga í forystu. Spurning sem sækir á hugann er hvort dómsúrskurðir um heimildir til hlerana segi allan sannleikann um þær hleranir sem raunverulega voru stundaðar á þessum tíma. Verkföll í upphafi Viðreisnar og endurteknar kosningar íhaldsins í Dagsbrún voru vissulega tilefni til hlerunar fyrir valdakjarna sem margoft sýndi að hann sveifst einskis ef því var að skipta.[1]
Hvað um það hér kemur sagan: Haft var samband við mig (ekki í síma) og ég spurður hvort ég væri tilbúinn að fara til Keflavíkur og mótmæla hernum og Nató. Ég var akandi, átti Moskvít, sem troða mátti í fjórum grönnum mönnum. Hluti liðsins hugðist taka rútu eða fara í öðrum bílum.
Moskvítinn var fylltur af úlpuklæddum friðarsinnum og haldið til Keflavíkur. Þegar að hliðinu var komið, þótti laganna vörðum ásamt verndurunum ósennilegt að þessir fjórir menn væru að taka á móti farþegum og var vísað frá. Því var þannig fyrir komið að í för var Keflvíkingur staðháttum kunnugur. Með snarræði og kunnáttu breyttum við í áætlun B. Keflvíkingurinn vísaði til vegar og lærlingsklippur mínar komu að góðum notum. Síðan var tekið á sprett og náð á áfangastað einhverjum mínútum of seint. En hvað um það, fleiri voru seinir fyrir þannig að inn í Kanaútvarpið gengu 14-17 friðarsinnar og listamenn.
Þegar inn var komið var hálfvandræðalegt ástand, útvarpsmenn undrandi og við einnig, engin mótspyrna stöðin féll án átaka eða vopna. Listamaðurinn skreytti myndverið með slagorðunum Ísland úr Nató á ýmsum tungumálum, litaði linsur hersins rauðar, enda ekki vanþörf, heimurinn hefur alltaf verið svart hvítur hjá könunum.
Sem áhugasamur rafvirkjanemi virti ég fyrir mér raflagnir stöðvarinnar sem voru einfaldar og utanáliggandi. Til þess að kanna hvort rétt væri kippti ég út höfuðrofanum og viti menn allt varð myrkt nema örfá öryggisljós. Þeirri hugsun skaut upp að ekki væri "varnarkerfi" landsins ýkja sannfærandi. Ekki skorti hinar sýnilegu varnir og reyndar ekki hinar ósýnilegu eins og fyrr getur.
Eftir mikið japl og fuður mynduðum við hring í keðju og vorum tínd eitt og eitt út í einu og mynduð af CIA.
Eftirmálar urðu nánast engir, enda um að ræða háðung hina mestu fyrir Bandaríkjaher sem hann án efa var ekki mjög áhugasamur um að auglýsa út fyrir landsteinanna.
Rúnar Sveinbjörnsson,
fyrrverandi rafvirkjanemi
Morgunblaðið Mánudaginn 22. maí, 2006
[1] Landhelgissamningar við Breta
1961 Í Lok febrúar 1961 lá fyrir samkomulag milli íslenskra og breskra stjórnvalda um lausn á deilu um 12 mílna landhelgi Íslands, sem hafði verið ástæða Þorskastríðs milli þjóðanna. Óvissa ríkti um hvernig almenningur myndi bregðast við samkomulaginu, og jafnvel ótti um að mótmæli, hliðstæð þeim sem urðu þegar Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið, yrðu, sagði Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur.
"Allur er varinn góður, hugsa æðstu valdhafar með sér. Eitthvert lið manna er tilbúið að verja þingið, líkt og forðum daga, og 26. febrúar 1961 leggur dómsmálaráðuneytið til við sakadómara að 14 símar verði hleraðir," sagði Guðni.
Hann vitnaði í gögn, þar sem rökstuðningur ráðuneytisins kom fram: "Óttast má að tilraunir verði gerðar til að trufla starfsfrið Alþingis á næstu dögum en þar verða til umræðu málefni, sem valdið hafa miklum deilum á þessu þingi og einnig valdið hótunum um ofbeldisaðgerðir, er til frekari meðferðar kemur á því, þannig að öryggi ríkisins geti stafað hætta af..."
Eins og áður féllst sakadómari á að láta hlera símanúmerin 14. Þrjú þeirra tengdust Alþýðubandalaginu, þ.e. hjá Sósíalistaflokknum, Sósíalistafélagi Reykjavíkur og Æskulýðshreyfingunni, ungliðasamtökum sósíalista. Þrjú símanúmer voru skráð hjá Verkamannafélaginu Dagsbrún, en að auki var sími Alþýðusambands Íslands hleraður. Ekki var hlerað hjá Þjóðviljanum, en hlustað var á síma Dagfara, tímarits Samtaka herstöðvarandstæðinga.
Samningurinn við Breta var samþykktur á Alþingi og í þingsal líkti stjórnarandstaðan honum við landráð, segir Guðni. Á þingpöllum og utan dyra var þó allt með kyrrum kjörum og ekkert varð úr mótmælum sem stjórnvöld töldu sig geta búist við.