Fara í efni

SPILAFÍKN - ALLT ER SAGT. NÚ ÞARF FRAMKVÆMDIR!!!

Ögmundur við höfum áður rætt um félaga okkar og vini sem spilafíknin hefur tekið af öll völd. Einstaklingar hafa misst aleigu sína. Yfirleitt er þetta vel gefið fólk, fíknin fer ekki í manngreinarálit fremur en alkahólsimi. Dapurlegast er þó að það eru mörg þjóðþrifafélög sem “njóta” góðs af starfseminni. Ég er sammála því sem þú hefur stundum sagt Ögmundur, að fíklarnir eru beggja vegna borðsins: Sá sem spilar og hinn sem tekur gróðann. Báðir eru háðir spilakössunum. Enda viðbrögðin eftir þessu. Það er ekki aðeins spilafíkillinn, sem lætur peningana af hendi rakna sem bregst við í bræði þegar honum er meinaður aðgangur að spilavítisvél. Það er ekki síður hinar virðulegu stofnanir, Háskóli Íslands og Landsbjörg, sem bregðast ókvæða við gagnrýnni umræðu um spilakassa. Það er einfaldlega vegna þess að þær eru háðar þeim fjármunum sem frá kössunum koma.

Fyrir rúmu ári sendi ég þér eftirfarandi tilögur, sem umræðugrundvöll

  • Enga spilakassa þar sem börnum er veitt innganga (18 ár), svo sem í sjoppum.
  • Enga spilakassa þar sem selt er áfengi.
  • Hámarksverðlaun 50-100 þús.
  • Ekki hægt að leggja meira undir en 10-50 krónur í einu.
  • Til að fjármagna “tapið” verði öllum fyrirtækum sem sýna gróða upp á meira en 100-milljónir gert að fjármagna tekjumissinn.

Ekki fékk ég viðbrögð við tillögum þessum, nema frá fíkli sem var í depurð (eftir mikið tap)og taldi hann þær skynsamlegar.

Vonandi er þetta innlegg í umræðunni og vænlegt til samstöðu.

Rúnar Sveinbjörnsson