RÚV í brennidepli
Atburðarásin í RÚV gerist sífellt harðari og ljóst að mikið kraumar undir. Viðbrögð þeirra Friðriks Páls Jónssonar og Kára Jónassonar, fréttastjóra útvarps, við gagnrýni útvarpsstjóra á Spegilinn eru mjög skiljanleg og sýnir að enn rennur blóðið í mönnum á þessum bæ – alla vega sumum. Í Fréttablaðinu í vikunni talar Friðrik Páll Jónsson um “rógsherferð” útvarpsstjóra og setur hana í pólitískt samhengi, nokkuð sem Ólína tekur mjög undir í lesendabréfi hér á síðunni í dag. Friðrik Páll, sem haft hefur yfirumsjón með Speglinum er afburðafréttamður og mjög vandur að virðingu sinni. Viðbrögð hans sýna hve mjög honum er misboðið. Ég skal alveg játa að það hryggir mig að Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri skuli kominn í þessa stöðu – opið stríð við marga sína bestu menn, því hann hefur oft á tíðum sýnt að hann vill veg RÚV mikinn og að mörgu leyti staðið vaktina vel fyrir hönd Ríkisútvarpsins. Ekki tek ég undir þá kröfu Ólínu að útvarpsstjóri víki úr embætti en hitt verður hann að gera og það er að taka upp breytta hætti gagnvart starfsmönnum. Það er mikilvægt að hann geri sitt til þess að deilurnar verði færðar inn í uppbyggilegan farveg og verði stofnuninni þannig til góðs þegar fram líða stundir. Makrmiðið á að vera að gera RÚV að kröftugum, opnum og gagnrýnum fjölmiðli sem er í senn upplýsandi og vekjandi. Þetta mun aldrei gerast með starfsmenn undir hælnum á yfirvaldi. Það þýðir hins vegar ekki að starfsmenn gagnrýni ekki hver annan og að sjálfsögðu hafa stjórnendur rétt og skyldu til að taka þátt í slíkri umræðu. Það á hins vegar að gerast á skipulegan og markvissan hátt og framar öllu opið, þannig að menn geti komið gagnrökum við. Þarna virðist pottur brotinn í RÚV.
Í þessum anda býð ég morgunvaktarmönnum að svara hér á síðunni gagnrýni Ólínu sem fram kemur í pistli hennar í dag. Hún segir m.a: “Bóndi minn hlustar á þennan þátt sem þýðir að ég hlusta stundum með öðru eyranu. Það vekur athygli mína að þarna virðist vera alveg ákveðinn viðmælendahópur sem kemur reglulega í huggulegt spjall við dagskrárgerðamennina tvo, Svein Helgason og Óðin Jónsson. Akureyringar eru tíðir gestir í þættinum, fólk í kringum Baugsveldið er eins og fréttaskýrendur, Kaupþingsmenn aufúsugestir, kratar og talsmenn fyrirtækisins Frétt. Oftast stendur upp úr þessu liði sami strókurinn og sömu áherslurnar í löngum viðtölum. Manni dettur stundum í hug að Baugur kosti þáttinn. Ætli tölvupóstsmaðurinn hlusti ekki á þessar munngælur á morgnana?” sjá nánar: https://www.ogmundur.is/is/greinar/tolvupostsmadurinn-viki
Er þetta rétt?