Fara í efni

RÚV RIFIÐ ÚT ÚR NEFND

Í gær var frumvarp ríkisstjórnarinnar rifið út úr menntamálanefnd Alþingis þrátt fyrir óskir nefndarmanna um ítarlegri umfjöllun og ábendingar um að veigamiklum spurningum væri ósvarað. En menntamálaráðherra og útvarpsstjóra liggur á. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, ráðherra, og nýskipaður útvarpsstjóri, Páll Magnússon, hafa ákaft kallað eftir stuðningi við að hlutafélagavæða RÚV og hefur útvarpsstjórinn ekki látið sitt eftir liggja í áróðrinum, innan stofnunar sem utan, síðustu daga og vikur. Hversu rétt það er að hann beiti sér í þessu efni á þennan hátt læt ég liggja á milli hluta – að sinni. Efasemdir mínar spretta m.a. af því að hlutafélagavæðing RÚV mun veita honum aukin völd og áhrif og að öllum líkindum einnig hærri laun því hlutafélagavæðingu fylgja yfirleitt kjarabætur fyrir æðstráðendur. Hógværari aðkomu að málinu hefði ég talið trúverðugri. Menntamálaráðherrann og útvarpsstjórinn hafa komið fram nánast eins og pólitískir síamstvíburar í málinu allar götur frá því þau kynntu frumvarpið um hlutafélagavæðingu RÚV sameiginlega í Kastljósi Sjónvarpsins á dögunum. Þá fáranlegu uppákomu gagnrýndi ég harðlega á Alþingi og saknaði ég þess óneitanlega mjög að sú gagnrýni skyldi ekki fá viðeigandi umfjöllun í fréttum Sjónvarps.

Nú kemur til kasta Alþingis. Á endanum mun reyna á stjórnarmeirihlutann á þingi. Gæti kraftaverkið gerst? Gæti það gerst að stjórnarmeirihlutinn losaði sig úr viðjum einsýnnar hugmyndafræði og spyrði hvað skynsamlegast og réttmætast sé að gera við þá þjóðareign okkar sem Ríkisútvarpið er? Er það rétt og skynsamlegt að fjarlægja þessa eign eigendum sínum, þjóðinni, eins og frumvarp ríkisstjórnarinnar gengur út á, eða á að styrkja tengslin við þjóðina? Auðvitað á að gera hið síðarnefnda. Illa væri mér brugðið ef starfsmenn Ríkisútvarpsins sjá ekki að síðari kosturinn er ekki aðeins í þjóðarhag, heldur einnig þeim í hag.