Fara í efni

RÚV SEGIR FRÉTTIR ÚR VALHÖLL

Mikið held ég að mönnum hafi létt eftir hina ítarlegu frétt Ríkisútvarpsins í gærkvöld um að eindrægni ríki innan Sjálfstæðisflokksins þrátt fyrir lúalegar árásir pólitískra andstæðinga á Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. Geir flokksformaður sagði fundarmönnum bæði í Valhöll og við sjónvarpsskjáinn tæpitungulaust: Við látum ekki fara svona með okkur. Og svo ljónheppinn var formaður Sjálfstæðisflokksins að Sjónvarpið náði hverju orði hans upp á band og einnig innilegheitunum í garð Björns prófkjörskandídats. Björn hélt einnig tölu þar sem hann furðaði sig á þráhyggju andstæðinga sinna um einhver eldgömul mál sem þeir væru að rifja upp þessa dagana auk þess sem þeir þrástöguðust á því að fara einhverja norska leið sem kæmi okkur ekkert við!

Hér átti dómsmálaráðherrann vitaskuld við þær upplýsingar sem fram hafa komið um að símar alþingismanna, blaðamanna, forsvarsmanna í verkalýðshreyfingu og almannasamtökum hafi verið hleraðir á Kaldastríðstímanum og hugsanlega lengur. Hvílík smámunasemi! Og norska leiðin sem dómsmálaráðherra Íslands segir að komi okkur ekkert við, hver skyldi hún vera? Norðmenn fóru þá leið að skipa rannsóknarnefnd á vegum norska þingsins til þess að fara í saumana á símhlerunum þar í landi á sama tímabili til þess að sannleikurinn yrði dreginn fram í dagsljósið. Þetta finnst Birni Bjarnasyni fráleitt og Sjónvarpinu finnst yfirlýsingar hans í þá veru greinilega ekki gefa tilefni til neinna frekari spurninga!

Auðvitað vita allir að innan Sjálfstæðisflokksins leikur nú allt á reiðiskjálfi, ekki síst eftir að Samband ungra Sjálfstæðismanna gagnrýndi dómsmálaráðherrann fyrir að vilja koma á fót íslenskri leyniþjónustu. Svo var greinilega komið að Geir H. Haarde sá sig knúinn til að freista þess að lægja öldurnar og gefa þá mynd að allt væri í lukkunnar velstandi innan flokksins. Jafnframt þótti augljóslega nauðsynlegt að reyna að drepa á dreif gagnrýni sem fram hefur komið á tregðu Sjálfstæðisflokksins við að upplýsa um njósnastarfsemi og mannréttindabrot sem framin voru hér á landi á Kaldastríðstímanum.
Allt gekk eftir: Boðað var til fundar í Valhöll. Fjölmiðlar með RÚV í broddi fylkingar mættu og síðan var messað um eldgömlu málin og hina lúalegu aðför að Birni Bjarnasyni! Allt síðan kórónað með frásögn fréttastofu Sjónvarps sem sagði okkur að ekki hefði verið annað að sjá á fundinum en allt væri í lukkunnar velstandi á milli þeirra Geirs og Björns. En er allt í lukkunnar velstandi á fréttastofu sem tekur svona á málum?

Dæmi hver fyrir sig:  http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4284354/2