S-P-A-N-G-Ó-L
Góð þótti mér grein Sunnu Óskar Logdóttur íMmorgunblaðinu um síðustu helgi. Fyrirsögnin var Pirraði og kynsvelti ráðherrann. Mörgum brá í brún við lesturinn framan af en til enda urðu menn að lesa greinina til að átta sig á boðskapnum. Ég leyfi mér að birta grein Sunnu hér að neðan svo þau sem ekki lesa Moggann fái notið.
Arna
„Ögmundur Jónasson er svekktur yfir að fá ekki að horfa á klám. Þess vegna vill hann banna það. Hann ætti að fá sér stinningarlyf, setjast niður með frúnni og horfa á hressilegt klám. Það verður nú ekki af honum Ögmundi tekið að hann er fíni bjáninn.
Ögmundur Jónasson er svekktur yfir að fá ekki að horfa á klám. Þess vegna vill hann banna það. Hann ætti að fá sér stinningarlyf, setjast niður með frúnni og horfa á hressilegt klám. Það verður nú ekki af honum Ögmundi tekið að hann er fíni bjáninn. Hann er greinilega afbrýðisamur út í klámvædda karlmenn, nær honum ekki upp og er pirraður. Það er allt greinilega í toppstandi í þjóðfélaginu úr því að hægt er að eyða peningum og tíma í svona mál.
Í hnotskurn, og nokkurn veginn orðrétt, brugðust netvæddir varðhundar klámsins með þessum hætti við þeirri frétt að innanríkisráðherrann Ögmundur Jónasson ynni að frumvarpi til breytinga á hegningarlögum í því skyni að spyrna við klámvæðingu. Ráðherrann hefur m.a. falið nefnd að kanna hvort varsla á klámi verði bönnuð, en einnig hvort hægt verði að gera lögreglu kleift að loka á dreifingu efnis.
Í viðtali við mbl.is kallaði Ögmundur eftir yfirvegaðri umræðu um málið. „Ef ekki má ræða bann við ofbeldisklámi sem öllum ber saman um að hafi mjög skaðleg áhrif á ungmenni og geti skýrt tíðni ofbeldisglæpa þá er illa fyrir okkur komið," sagði Ögmundur.
Þetta var fullmikil bjartsýni hjá ráðherranum.
En það var svo sem ekki von á því að þessi ákveðni hópur kvenna og karla sem telja sig þurfa að vernda klámiðnaðinn brygðist við með nokkrum öðrum hætti. Reyndar má efast um að þessir mannlegu hlífðarskildir klámsins hafi lesið fréttina, aðeins fyrirsögnina. Hugsanlega - en aðeins hugsanlega - hefðu viðbrögðin verið yfirvegaðri ef fréttin hefði verið lesin til enda.
Viðbrögðin eru reyndar svo fyrirsjáanleg að þau verða hlægileg: Auðvitað er ráðherrann kynsveltur, auðvitað er hann afbrýðisamur, auðvitað er hann pirraður. Rétt eins og aðrir femínistar sem hafa skoðun á klámvæðingunni og vilja finna leiðir til að verjast henni. Og til að setja punktinn yfir skólabókardæmið ætti hann að eyða peningum og tíma hins opinbera í annað.
Því að: „Klám er afþreying og leið fyrir marga að fá útrás á vissan hátt. Þegar aðgengi að því verður heft, þá gerist ekkert annað en að fólk mun leita annarra leiða til að fá útrás. Hvernig ætli það endi?" Og ef þessi „forræðishyggja" í anda „nornaveiða" nær fram að ganga mun Ögmundur hafa annað á samviskunni því ung háskólamær í námi erlendis hótar í ummælum við fréttina að koma aldrei aftur heim til Íslands. Aldrei.
Af þessum ástæðum á maðurinn svo auðvitað að „taka pokann sinn tafarlaust". Minna má það ekki vera.
Ögmundur Jónasson hefur áður synt óhræddur á móti straumnum í sinni pólitík. Þó að nokkrir yggldir tittir verði á þeim vegi er ekki nokkur hætta á að hann flýi.
Og af því að þessi viðbrögð eru svo fyrirsjáanleg, svo hlægileg, þá er það nú aðeins væl sem í þessum varðhundum heyrist - aðeins langdregið og ámáttlegt ýlfur. Spangól.
sunna@mbl.is."
Sunna Ósk Logadóttir