SA, almannaþjónustan og opinberir starfsmenn
Í nýútkomnu fréttabréfi Samtaka atvinnulífsins er í leiðara vikið nokkrum orðum að undirrituðum og þá einkum grein sem ég setti á heimasíðu mína 10. janúar s.l. þar sem ég fjallaði um afstöðu SA til almannaþjónustunnar. Fram höfðu komið áhyggjur af hálfu þessara talsmanna atvinnurekenda að starfsmönnum innan almannaþjónustunnar hefði fjölgað örar en í einkageiranum. Slíkt kynni ekki góðri lukku að stýra. Í leiðara þessa nýútkomna fréttabréfs SA er svo framhald þessarar sögu.
Ég vil þakka SA mönnum fyrir að vilja ræða þessi efni á málefnalegum grunni þótt ekki hafi þeim að öllu leyti fallið tónninn í mínum skrifum. Það er gagnkvæmt og skulum við láta það liggja á milli hluta.
Ég ætla einnig að láta liggja á milli hluta hvernig SA virðist hafa hrapað að niðurstöðu varðandi fjölgun opinberra starfsmanna en í Vefriti fjármálaráðuneytisins eru fullyrðingar SA hvað þetta snertir hraktar. Ekki hef ég orðið var við að fjölmiðlar sýndu þessum leiðréttingum sama áhuga og röngum fullyrðingum SA á sínum tíma. Um þetta má lesa nánar á vefsíðu BSRB
Víkjum stuttlega að þremur meginþemum í þessari umræðu:
1) Við þeirri staðhæfingu minni um að hlutdeild hins opinbera sé síst minni hér á landi en gerist í flestum samanburðarríkjum okkar, sérstaklega ef horft er til Norðurlandanna, þá svarar Gústaf Adolf Skúlason talsmaður SA því til að þessi samanburðarríki séu einmitt í erfiðri stöðu: “Umrædd ríki glíma einmitt við þann vanda að vöxtur opinbera geirans samhliða hækkandi meðalaldri setja sívaxandi þrýsting á efnahagslífið sem líkja má við krísu. Hlutfallslega þurfa sífellt færri að standa undir sífellt dýrara kerfi opinberrar þjónustu...” Nú veit ég ekki hvort SA er að mælast til þess að dregið verði úr almannaþjónustu. Við því þyrftum við að fá svar. Ef það yrði á þá lund að Samtök atvinnulífsins á Íslandi vilji að almannaþjónustan verði eigi lakari en hún nú er og hugsanlega enn betri hvort sem er í sjúkrahúsum, skólum, samgöngum, veitukerfum eða annars staðar, þá er ljóst að sá vandi sem fylgir breyttri aldurssamsetningu þjóðanna hverfur ekki með breyttu rekstrarformi. Spurningin snýst þá um umfang þjónustunnar og þær kröfur sem við gerum til þjónustustigs og gæða. Fyrir fáeinum árum var mikið rætt um lífeyrismál í því samhengi sem SA stillir hér upp. Á það var bent að eftir tvo áratugi eða svo yrði aldurssamsetning þannig að hlutfallið á milli þeirra sem væru starfandi og lífeyrisþega myndi breytast, færri yðru til að framfleyta fleira fólki. Eftir að lífeyrissjóðrnir styrktust gufaði þessi umræða upp. Að mínum dómi er þó ekki laust við sjálfsblekkingu. Því þrátt fyrir tilkomu sjóðanna er vandinn í grundvallaratriðum hinn sami: Eftir sem áður mun reynast nauðsynlegt að taka tiltekin verðmæti út úr efnahagslífinu til að fjármagna lífeyri eldri kynslóðar og gildir þá einu hvort kerfið er rekið með sjóði sem fjárfestir í atvinnulífinu eða með skattlagningu. Svo lengi sem til stendur að greiða fólkinu svipuð verðmæti þá er vandinn nákvæmlega sá sami. Það er síðan allt annar handleggur hvaða hliðarverkanir mismunandi fyrirkomulag (sjóðir eða skattar ) kann að hafa á atvinnulífið. Frá þessari grunnforsendu komumst við ekki. Í tengslum við lífeyrisumræðuna var reyndar iðulega sagt að ekki yrði komist hjá því að skerða lífeyrisréttindin þegar fram líða stundir vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar. Í framhaldi af því er rétt að árétta spurninguna til SA: Eru samtökin að gera kröfu um að dregið verði úr almannaþjónustu?
2) Þá kemur að þeirri staðhæfingu minni að fráleitt sé að alhæfa á milli einkageirans annars vegar og hins opinbera hins vegar, hvað framleiðni snertir. Um góða framleiðni í opinbera geiranum vísaði ég til skýrslna frá OECD, m.a. á sviði heilbrigðismála. Gústaf Adolf, talsmaður SA fjallar sérstaklega um heilbrigðisútgjöld sem ég mun skoða sérstaklega og svara síðar. En varðandi þá fullyrðingu mína að alhæfingar séu varasamar telur hann greinlega rétt að vísa öllu slíku á bug. Hann segir: “Hitt er deginum ljósara að einkarekstur er mun betur til þess fallinn að stuðla að aukinni framleiðni en opinber. Þar er hvatinn til arðsemi ríkari, þar er krafa samkeppnisumhverfisins um hagræði í rekstri sífellt til staðar og þar er vinnumarkaðurinn sveigjanlegri.”
Þetta tel ég vera vafasama fullyrðingu og hvað almannaþjónustuna snertir dugir náttúrlega ekki að setja málin fram í eins einfölduðu formi og hér er gert: Í fyrsta lagi er fráleitt að alhæfa að þessu leyti varðandi framleiðni og vísa ég þar að nýju til skýrslna OECD um þann mikla virðisauka í íslenska hagkerfinu sem staðhæft er að megi rekja til opinberrar þjónustu. Í öðru lagi dugir ekki annað en að horfa til þjónustustigsins þegar almannaþjónusta er annars vegar. Þannig er hvatinn í einkarekstri vissulega að skapa arð eins og Gústaf Adolf bendir á, en að hvaða marki er sú arðsemi þjóðhagslega til góðs? Fram hefur komið m.a. í skýrslum Ríkisendurskoðunar að hið einkarekna dvalarheimili fyrir aldraða að Sóltúni í Reykjavík er langdýrasta elliheimilið fyrir skattborgarann sem rekið er í landinu. Það skapar eigendum sínum hins vegar mikinn arð að þeirra eigi sögn og er það staðfest í gögnum Ríkiendurskoðunar. En er þetta skynsamlegt fyrir þjóðfélagið? Þegar mismundi rekstrarform eru gaumgæfð þarf að horfa til þjóðhagslegra þátta og að sjálfsögðu einnig til þjónustustigsins. Er hvati til að skapa eigendum fyrirtækis arð jafnframt til þess fallinn að bæta þjónustu? (Þessa spurningu þyrfta að reifa í öðru samhengi einnig ef um væri að ræða þjónustu á samkeppnismarkaði en ekki er um að slíkt að ræða. Þetta er lykilatriði.)
3) Spurninguna um rekstrarform reifar talsmaður SA nánar. Hann segir að enginn efist “um mikilvægi ýmissar almannaþjónustu. Ekki er hins vegar alltaf nauðsynlegt að opinberir aðilar sjái um að veita þjónustuna, að ekki sé talað um hversu óeðlilegt það er þegar hið opinbera keppir við einkaaðila um veitingu hennar á markaði. Eða á Vegagerðin að leggja alla vegi og sjá um viðhald á þeim? Þurfa opinberar aðilar að eiga alla almenningsvagna? Á Ríkissjónvarpið að kljást við einkaaðila um réttinn til að sjónvarpa ensku knattspyrnunni, Idol og Law and Order?”
Um hvar línurnar á milli opinbers reksturs og einkareksturs eiga að liggja gilda engin algild lögmál og þessar línur þurfa stöðugt að vera í endurskoðun. Sumt af því sem Gústav Adolf nefnir finnst mér fullkomlega réttmætt. Ekki agnúast ég út í það, svo dæmi sé tekið, að Vegagerðin bjóði út verkefni, viðhald og lagningu vega! Í mínum huga snýst spurningin fyrst og fremst um það hvar réttmætt sé að beita lögmálum markaðarins og hvar ekki til þess að tryggja sem besta þjónustu á sem hagkvæmastan hátt.
Gústav Adolf telur að vel hafi tekist til við einkavæðingu hér á landi og í útlöndum og nefnir nokkur dæmi. Hann segir til dæmis, að í Svíþjóð hafi tekist, í tengslum við einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu, að ná niður kostnaði án þess að rýra þjónustu. Ég auglýsi hér með eftir gögnum um þetta. Hins vegar mótmæli ég því að í Bretlandi séu einkarekin fangelsi rekin við "góðan orðstír" eins og Gústav Adolf heldur fram. Reyndar eru einkavæddu fangelsin í Bretlandi einu dæmin þar sem tókst að ná kostnaði niður við svokallaða einkaframkvæmd en þá á kostnað fanga og starfsfólks. Þetta kemur m.a. fram í skýrslum frá bresku verkalýðssamtökunum Unison.
Talsmaður SA klykkir út í leiðara sínum með eftirfarandi orðum: “Spurningin á ekki að vera sú hvort það eigi að fela einkaaðilum reksturinn og nýta þannig kosti einkarekstrar, heldur hvers vegna ekki.”
Ég legg til að við stillum spurningunni öðru vísi upp og spyrjum: Hvaða fyrirkomulag er líklegast til að vera réttlátt í þeim skilningi að mismuna ekki þegnunum; rekið á hagkvæmastan hátt fyrir þá sem eiga að njóta þjónustunnar; er hagkvæmast fyrir þá sem eiga að greiða fyrir þjónustuna og ákjósanlegast fyrir starfsmennina, veitendur þjónustunnar.
Lögmál markaðarins eiga víða við. Ekki alls staðar, því fer fjarri. En væri ekki ráð að sammælast um að forðast alhæfingar og grafast fyrir um reynsu af mismunandi rekstrarformum? BSRB hefur unnið ötullega að söfnun slíkra gagna og efst ekki um að SA er einnig áhugasamt um að færa þessa umræðu yfir í sjálfan reynsluheiminn og spyrja einfaldlega, hvað hefur gefið besta raun?