SA GEGN SAMNINGSRÉTTI
Birtist í Fréttablaðinu 14.02.08.
Greinilegt er að samtök atvinnurekenda leggja nú allt kapp á að fá ríkisstjórnina til að undirgangast loforð um að hvergi verði komið til móts við kjarakröfur launafólks innan almannaþjónustunnar umfram það sem Samtökum atvinnulífsins þóknast. Þessi krafa SA, sem m.a. hefur komið fram í Fréttablaðinu, gengur út á að ríkisstjórnin hundsi samningsrétt BSRB og annarra samtaka sem semja fyrir launafólk innan almannaþjónustunnar. Í annan stað er þetta krafa um að ríkisstjórnin svíki gefin fyrirheit um að bæta verulega kjör stétta innan velferðarþjónustunnar. Að undanförnu hafa borist fréttir af manneklu á velferðarstofnunum, innan löggæslunnar og á ýmsum þjónustusviðum. Enginn deilir um að þetta er vegna óhóflegs álags og ónógra kjara. Í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga og einnig nú í haust hafa ráðherrar og þingmenn innan beggja stjórnarflokkanna sagst myndu styðja kjarabætur í almannaþjónustunni í komandi kjarasamningum, en samningar eru lausir gagnvart ríkisstarfsmönnum í vor og bæjarstarfsmönnum í haust. Spurningar gerast áleitnar við kröfugerð Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra SA, á hendur ríkisstjórninni. Er hann að aðstoða stjórnina, skera stjórnarflokkana niður úr snöru eigin loforða? Þá er rétt að ítreka spurningu mína um hvernig á því standi að ekki fáist svör frá umönnunarráðherrunum, Jóhönnu, félagsmálaráherra og Guðlaugi Þór, heilbrigðisráðherra, um hver sé sýn þeirra á launakjör starfsfólks á hjúkrunarstofnunum og stofnunum fyrir aldraða og fatlaða? Telja Samfylking og Sjálfstæðisflokkur sig lausa allra mála vegna kröfugerðar atvinnurekenda? Ráðherrarnir mega vita að þegar nær dregur samningum verður gengið eftir því við þau hvernig þau ætli að axla ábyrgð sína gagnvart stofnunum þar sem starfsfólk er á flótta undan bágum kjörum? Faðmlag þeirra við atvinnurekendur breytir þar engu um.