SA HÆÐIST AÐ BARÁTTU GEGN VERÐTRYGGINGU FJÁRMAGNS
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs hjá Samtökum atvinnulífsins (SA), sagði í viðtali við Morgunblaðið á skírdag að atvinnurekendasamtökin væru í þann veginn að senda ríkisstjórninni tillögur sínar að aðgerðarpakka tvö vegna kórónufaraldursins. En jafnframt þurfi að horfa til farmtíðar að loknu björgunarstarfinu:
„Það er ljóst að þegar við förum að sjá til sólar á ný og viðspyrnan hefst þarf að horfa til þess hvar hægt er að hagræða í ríkisrekstri, auka skilvirkni og nýta betur fjármagn skattgreiðenda. Ríkissjóður verður fyrir verulegu tekjutapi og fyrr en síðar þarf að finna leiðir til að loka hallarekstri ríkissjóðs.“
Samtök atvinnulífsins tali skýrar
Það er ekkert nýtt að SA vilji fá nokkru – helst öllu – um það ráðið hvað skuli gert til bjargar stórfyrirtækjum á kostnað skattgreiðenda. Það er heldur ekkert nýtt að SA vilji láta draga saman í almannaþjónustunni. Aðstæður eru að vísu svoldið sérstakar nú og hef ég verið að bíða eftir því að fjölmiðlar grennslist fyrir um hvar SA vilji að niðurskurðarhníf verði einkum beitt; í heilbrigðis- eða menntakerfinu eða í almannatryggingum, hvar?
Ríkisrekstur eins og allur annar rekstur á að sjálfsögðu að vera í stöðugri endurskoðun og í leit að leiðum til að sinna verkefnum sínum betur í dag en í gær. Sjálfsagt þykir mér að hafa opna og gagnrýna umræðu um þetta. Við gætum þá rætt um framlög til NATÓ, hvernig jafna megi kjör, leggja ýmis sjálfhverf verkefni stjórnmálanna til hliðar …
Gamall kækur?
En því miður hef ég grun um að það sé ekki þetta sem SA kallar eftir. Ég hef óþægilega tilfinningu fyrir því að upp sé að taka sig gamall ósjálfráður kækur; nefnilega hin sígildu kreppuviðbrögð að færa þurfi niður kjör hinna lakar settu, skerða réttindi launafólks, ráðast í stórar verktakaframkvæmdir á vegum og í brúarsmíði, lækka skatta á fyrirtæki og fjármagn … og svo náttúrlega beita óviðjafnanlegu töfrabrögðunum, einkaframkvæmd og einkavæðingu. Skyldi SA vilja fleiri gamma? Eða klíník tvö, þrjú og fjögur…?
Hagfræðingur SA gaf upp boltann.
Fjölmiðlar spyrji.
Verðtryggt fjármagn “hættulaus óvinur”?
Svo má líka spyrja hvort félagar í SA séu sammála samtökum sínum um að krafa um afnám vísitölubindingar fjármagns og frysting lána sé álíka hlægileg og viðureign við vindmyllur að hætti frægrar sögupersónu Cervantes. Á heimasíðu SA er baráttunni við ágengt fjármagnið einmitt líkt við framgöngu Don Kíkóta “sem gerði sér far um að berjast við ímyndaða eða alla jafnan hættulausa óvini.”
Ég hefði haldið að um væri að ræða meira alvörumál en svo að hægt væri að hafa það í flimtingum.
Fjöldi heimila verður nú fyrir tekjutapi, sama á við um mörg fyrirtæki og þá ekki síst smáfyrirtækin og einyrkjana sem við engu mega, lánin á stöðugri uppleið, greiðslugetan á niðurleið og velvildin í bankakerfinu í öfugu hlutfalli við stærð fyrirtækisins!
Við þessar aðstæður þarf að herða að fjármagninu, taka sjálfvirkni þar úr sambandi og frysta afborganir hjá þeim sem ekki eru aflögufærir.
Alþingi setji lög á fjármgnið
Um þetta þarf að setja lög hið snarasta. Ljóst er að tillögur þessa efnis mun ekki vera að finna í fyrrgreindum páskapakka SA. En nú er það heldur ekki svo að SA eigi að ráða ferðinni þótt ástæða sé að ætla að áhrifa þessara samtaka séu hættulega mikil. Um það bera þessar yfirlýsingar og hrokafull skrifin vitni.
Þegar öllu er á botninn hvolft þá eru þessi viðbrögð sennilega ekki bara kækur heldur grimm hagsmunabarátta sem almenningur verður að mæta með gagnkröfum um leið og öllu háðungartali er vísað til föðurhúsanna.