Fara í efni

Saga um Sögu


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 19/20.12.20.
Ég er ekki hlutlaus þegar Hótel Saga er annars vegar. Ég reri nefnilega á heimasmíðuðum prömmum í grunni þessarar miklu byggingar þegar hún var í smíðum, sótti síðan böllin í Súlnasalnum, hátíðahöld og ráðstefnur í ótal salarkynnum gömlu Sögu og síðan viðbyggingum þegar þær komu til. Grillið var toppurinn!

Og svo voru þetta höfuðstöðvar samtaka bændanna í landinu, samtaka sem ég alla tíð hef borið mikla virðingu fyrir. Hótel Saga var þannig annað og meira en hótel. Þetta var sjálf Bændahöllin.

Ég rek þetta sem formálsorð til að vara við hlutdrægni minni áður en ég kem að meginmálinu sem í rauninni er ósköp stutt, rúmast í hálfri annarri setningu sem er eftirfarandi: Ég sé eftir Hótel Sögu, og ég sé eftir höll bændanna ef hún hverfur úr eignarhaldi þeirra.

Er þá komið að eftirmálanum: Ef þessi mikla bygging kemur til með að nýtast öldruðum eins og nefnt hefur verið eða gegna góðu virðingarverðu hlutverki þá mun eftirsjá mín eflaust fljótt hverfa. En ekki er sú stund enn runnin upp.

Í huga mér hrannast upp spurningar.
Sagt að Hótel Saga kæmi til með að eiga erfitt á hótelmarkaði.
Hvers vegna?
Jú, verið er að byggja hvert risahótelið á fætur öðru í miðju borgarinnar og er Austurvöllur þar ekki undanskilinn. Milljarðamæringur frá Malasíu - maður sem aldrei mun hafa stigið fæti hér á land en er, sem eigandi Icelandair-hótelanna í landinu, einn af helstu styrkþegum íslenskra skattgreiðenda í viðspyrnu stjórnvalda gegn kórónu-veirunni - vill nú nota styrkina til að byggja heljarinnar hótel og lúxusíbúðir við Tryggvagötuna í miðbæ Reykjavíkur. Skammt undan, við hlið tónleikahússins Hörpu, er verið að ljúka smíði risahótels bandarísku Marriott-keðjunnar. Svo er, sýnist mér, orðið fokhelt nýtt hótel í Lækjargötunni. Allt þetta er til viðbótar við öll hin hótelin, gömul og ný.

Hver skyldi stjórna þessu? Því er auðsvarað, fjármagnið stjórnar þessu, fjáfestarnir. Þeir spyrja aldrei um samfélagslega hagkvæmni heldur aðeins hvar þeir nái í bestu lóðina, hvernig auðveldast sé að ryðja keppinautum til hliðar, með öðrum orðum, hvernig hanna megi eina borg þannig að hún þjóni hagsmunum þeirra sem best. Í Reykjavík hefur þetta tekist bærilega.

Svo tala stjónmálamennirnir um mikilvægi skynseminnar og hófseminnar, að dregið verði úr kolefnismyndun sem hljótist af öllu bramboltinu og raskinu sem mannskepnan ræðst í sýknt og heilagt. Það var einmitt það sem bandariski umhverfissinninn Fred Magdoff sagði þegar hann kom hingað til lands fyrir rúmu ári, að kapítalisminn, með innbyggðri útþenslu sinni, ráði ekki við að glíma við umhverfisvána. Hann kyndi þvert á móti undir henni. Það þurfi því að taka fram fyrir hendur hans.

Varla verður það gert með heitstrengingum um að við ætlum að koma okkur undir öll lofuð mörk og viðmið eftir tíu ár eða tuttugu ár, með því að rækta asparskóga, moka ofan í mýrlendisskurði og draga úr iðrakvefi búfjár.

Magdoff sagði að við yrðum að hemja kapaítalismann. Taka stjórnina úr höndum fjárfestanna. Koma skynseminni fyrir í stjórnklefanum, í stuttu máli, höggva á verktakaræðið hjá ríki og borg.

Ef það væri gert ættu Hótel Sögur þessa heims góða lífsmöguleika og íhaldsmenn eins og ég gætum glaðst.