Fara í efni

SALKA VALKA Á ENN ERINDI

Salka ballett
Salka ballett

Morgunblaðið upplýsir að LÍÚ sé að kanna hvort nýtt lagafrumvarp um fiskveiðistjórnun og þó sérstaklega auðlindagjald standist stjórnarskrá Íslands; hvort hugmyndir sem þarna sé að finna stríði gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar og að hugsanlega sé um eignaupptöku að ræða.

Það er nefnilega það. Öll þessi ár er búið að segja okkur að þjóðin eigi auðlindina í sjónum. Það er bara þegar þjóðin veltir vöngum yfir hvernig með þessa eign skuli farið að annað hljóð kemur í strokkinn.

Eigendur Samherja tala nú til íslensks samfélags sem marghöfða eigandi alþjóðlegra sjávarútvegsfyrirtækja og verður málflutningurinn varla skilinn öðru vísi en hótun í garð íslenskra eftirlitsaðila. Hafi þeir sig ekki hæga bitni það á íslensku samfélagi. Þetta er meira á borði en í orði. Í orði erum við fullvissuð um að Samherji muni gera allt sem unnt er til að ná í vinnsulafla á Eyjafjarðarsvæðið á meðan á borði, þýskt dótturfyrirtæki undir regnhlíf sama forstjóra og þannig mælir, neitar að senda afla á Dalvík meðan rannsókn á málefnum tengdum Samherja stendur yfir!

Bogesen er aldrei langt undan. Nema hvað núna er hann ekki bara með tökin á Óseyri við Axlarfjörð eins og forðum heldur liggja valdaþræðirnir suður til Evrópu og víðar um heim. En hvaðan var auður Bogesens sprottinn? Um það og siðferðilega ábyrgð auðs og valda fjallaði meistarasmíð Halldórs Laxnes, Salka Valka, á sínum tíma. Viðfangsefnið er sígilt. Það eru eigendur Samherja að sýna fram á með ummælum sínum og athöfnum þessa dagana. Sama gildir um LÍÚ og Mogga.