Fara í efni

SAMA LIÐIÐ KOMIÐ Á KREIK – FÁIR TIL VARNA FYRIR ALMENNING

Hvers skyldi áhættan hafa verið þegar einkavæðing bankanna var um garð gengin á fyrsta áratug aldarinnar og fjármálahrunið í kjölfarið? Svarið er einfalt. Hrunið bitnaði á samfélaginu og verst á þeim sem verst stóðu.

Nú eru sömu álitsgjafar komnir á kreik og í aðdraganda hrunsins og stjórnmálamenn eru með nákvæmlega sömu formúleringar og áður. Það sem vantar er sú rödd sem á þeim tíma kom frá VG. Fínt sé að selja, nú sé komið svo gott regluverk, allt svo gagnsætt, heyrist einng úr þeirri átt. Hvað nákvæmlega er eiginlega verið að tala um?

Til sanns vegar má færa að af hálfu VG var varnarlínan færð til á síðari stigum og átti að standa um eignarhald á einum banka, Landsbankanum, en það var vel að merkja varnarlina þvi við vorum að reyna að verjast fulltrúum fjármagnsins, vildum forðast í lengstu lög að hleypa fjárgróðaöflum ofan í vasa almennings. Þangað komust þau þó í allt of ríkum mæli á okkar vakt. Því verður að gangast við.
Á undanförnum árum hafa margir félagslega þenkjandi stjórnmálamenn viljað horfa til samvinnuformsins eins og tíðkast í þýska fjármálakerfinu. Man ég ekki betur en Frosti Sigurjónsson, Framsóknarflokki, hafi talað fyrir slíkum sjónarmiðum á Alþingi og sjálfur hef ég talað þessu máli.

Nú heyri ég ekki betur en að fulltrúar allra ríkisstjórnarflokkanna auk Viðreisnar tali fyrir sölu bankanna og finnst hún hið besta mál. Athyglisvert þótti mér að heyra að eina röddin á Sprengisandi Bylgjunnar síðastliðna helgi, sem vildi láta ríkiseignarformið njóta sannmælis, var þáttastjórnandinn, Kristján Kristjánsson. Margt undarlegt var þó látið óátalið til dæmis ómakleg ummmæli um Íbúðalánasjóð, hann hafi farið svo  illa með þjóðina! Hvernig í ósköpunum er hægt að tala svona í kjölfar hruns einkavæddra banka sem settu allt samfélagið á hliðina?  
Sprengisandur Bylgjunnar: https://www.visir.is/k/5ed9724e-4490-4344-a57c-6146ff894943-1610279968038
Oddný Harðardóttir; Samfylkingu, hefur lagst gegn bankasölu, alla vega núna, og Stefán Ólafsson, fyrrum prófessor, nú starfandi hjá Eflingu hefur andmælt henni. Þökk sé þeim!
Mín skoðun er sú að félagslega þenkjandi fólk eigi að taka upp baráttu fyrir samvinnueignarhaldi og rekstri þeirra fjármálastofnana sem ríkið á ekki beint.
(Fréttin að ofan er af forsíðu Fréttablaðsins)