Fara í efni

SAMFYLKINGIN GEKK Í SJÁLFSTÆÐISFLOKKINN Í GÆR


Stjórnmál eins og við þekkjum þau hlutu hægt andlát undir miðnættið í gær. Turnarnir tveir voru rifnir, burðarflokkur í ríkisstjórn varð að ósköp venjulegum staurfót. Jafnrétti breyttist í hjónaband. Þar gengur hún undir honum, heldur heimilinu gangandi og sér um inniverkin. Hann heldur um veskið og sér um allt utanhúss. Heilsugæslan verður einkavædd. Orkugeirinn gerður klár.

Það er ákveðinn naívismi ríkjandi innan Samfylkingarinnar sem byggist á því að jafna saman kapítalisma og kaupmanninum á horninu. Jafnvel þeim efnaðasta á meðal þeirra. En það að eiga Shell á Íslandi er ekki kapítalismi, það er að vera í góðum efnum. En þegar fyrirtæki ráða yfir tugþúsundum launafólks, þá er það kapítalismi. Bechtel með yfir hundrað þúsund. Alcoa/Alcan ef af verður á endanum yfir hundrað þúsund, Impregilo, Baugur, Bakkavör. Kapítalismi í þessum kaldhamraða veruleika er nýtt fyrirbæri á Íslandi. Ef slíkur kaptíalismi nær fótfestu þá mun þjóðin ekki eiga möguleika á að ráða lífi sínu. Það sanna dæmin.
Samfylkingin er nýjasta kærasta Sjálfstæðisflokksins, kannski ekki neitt gríðarlega sæt en glöð og bjartsýn. Og ekki síst trúgjörn og naív. Samfylkingin heldur að Baugur séu nokkrir einstaklingar. Að Bechtel verði hægt að setja reglur. Að Impregilo sé ekkert ósvipað Hagvirki eða Ístak, jafnvel eins og Simmasjoppa. Að með "vönduðum vinnubrögðum" sé hægt að stjórna efnahagslífinu á Íslandi í sátt við auðhringana.

Brosin á nýju Samfylkingarráðherrunum náðu aftur fyrir hnakkann og allt um kring í sjónavpsviðtölunum í gærkvöld. Við ætlum að gera alla glaða sagði Möller samgönguráðherra. Hann var glaður og líka Jóhanna sem gladdist yfri því að kona var í forsvari fyrir hennar flokk og Sólrún formaður, nýkysst af Geir, var líka glöð. Nærveran við kjötkatlana þykir mörgum góð. 
Fyrir flesta aðra er þetta eitthvað allt annað. Hin endalausa barátta. Barátta raunsæis (þeirra sem eru alltaf á móti) við trúgjarna framfarasinna.
Sennilega þurfum við ekki að hafa áhyggjur af hinum bernska framfarasinna né heldur einstaklingsframtakinu ef því er að skipta. Það mun alltaf sjá um sig þótt kæfandi stórkapítalið gerist æði fyrirferðarmikið í landi voru. Barátta fyrir siðmenningu er hins vegar okkar verkefni hvort sem er í grasrót eða stofnanapólitík. Hún sér ekki um sig. Til þess þarf framtak þeirra sem þora að vera alltaf á móti. Alltaf á móti útrýmingu Gyðinga. Alltaf á móti tilraun til að útrýma Palestínumönnum. Alltaf á móti gjöf ríkiseigna. Alltaf á móti? Alltaf með mannréttindum, alltaf með jafnrétti, alltaf með náttúruvernd, alltaf með einstaklingsframtaki, alltaf með góðum málefnum. Vinstri græn eru alltaf með góðum hlutum en þora að vera á móti rugli, ofbeldi og þjófnaði. Náttúruspjöllum, einkavæðingu mennta og heilbrigðis. Við erum með frelsi, atvinnufrelsi, gjaldfrjálsri heilsugæslu fyrir alla.

Nú eru komnir nýir tímar. Samfylkingin ákvað að ganga í Sjálfstæðisflokkinn sem nú er orðinn 60% flokkur. Við byrjuðum í 2%, erum komin í 15% og verðum auðvitað hinn stóri vinstriflokkur, einfaldlega af því við erum vinstriflokkur. Við viljum öðruvísi samfélag. Alveg burtséð frá skoðanakönnunum.

Að sjálfsögðu hefðum við viljað aukin völd og þar með áhrif og höfðum gert okkur vonir um slíkt við stjórnarskiptin. En við vitum líka hitt að við hvorki stöndum né föllum með völdum. Og þegar allt kemur til alls er í því fólgið vald að eiga góðan málstað. Hann er það sem öllu máli skiptir: Góður og réttlátur málstaður. Með honum má vinna góða sigra.