SAMGÖNGU-MANNVIRKJA-DULMÁL
Mál málanna í hugum einhverra í nýafstaðinni kosningabaráttu í Reykjavík var svokölluð Borgarlína. Sumir voru fylgjandi, aðrir andvígir eins og gengur.
Fæstir virtust þó vita nákvæmlega hvað við væri átt.
Eftir því sem ég kemst næst er Borgarlína annað nafn á almenningssamgöngum. Nákvæmara hefði verið að spyrja fólk um afstöðu til bættra almenningsamgangna en að spyrja um skoðun á hinni óræðu Borgarlínu.
Borgarlínan væri nokkuð sem kostaði mikla peninga sagði oddviti Sjálfstæðisflokksins. Nær væri að byggja hindrunarlaus gatnamót.
En bíðum við, hvað þýða hindrunarlaus gatnamót? Hér er aftur þörf á dulmálslykli.
Hindrunarlaus gatnamót eru þegar allt kemur til alls, mislæg gatnamót, dýrasta framkvæmd á fermeter sem hugsast getur!
Valið á milli góðra almenningsamgangna og mislægra gatnamóta er í reynd valið á milli Houston og Amsterdam. Hvort við viljum bæta við akrein fyrir hverja tíu þúsund bíla sem koma nýir á göturnar eða temja okkur samgöngumáta evrópskra stórborga.
Þegar ég var samgönguráðherra á árunum 2010-13 beitti ég mér fyrir því að samsvarandi fjármunum og fóru í göng og brýr á landsbyggðinni gengju til eflingar almenningsamgangna á höfðuborgarsvæðinu. Þetta væri „stórframkvæmd" suð-vestur hornsins. Og öll sveitarfélögin á svæðinu voru sammála. Borgarlínan er síðan útfærsla á því hvernig almenningssamgöngur verði best skiplagðar.
En ekki þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Þeir voru æfir og vildu halda sig við gamla tímann, bíl undir hvern rass. Þeir eru enn við sama heygarðshornið.
Það sem kjósendur og skattgreiðendur eiga hins vegar eftir að átta sig á, er að lausn Sjálfstæðisflokksins, hindrunarlaus bílför, er margfalt dýrari en Borgarlínan nokkurn tíman verður. Og er þá ekki byrjað að tala, hagkvæmni og mengun.
Og vel að merkja, enginn er að tala um að útrýma einkabílnum. Alla vega ekki ég. Spurningin er um áherslur í skipulagi samgangna til framtíðar litið.