SAMGÖNGURÁÐHERRA Á FÖRUM VAKNAR TIL LÍFSINS !
Birtist í Morgunpósti VG 20.03.07.
Sturla Böðvarsson, fráfarandi samgönguráðherra, kom fram í fréttum Sjónvarps og sagði að tíðinda væri brátt að vænta varðandi útboð á Suðurlandsvegi og jafnvel Vesturlandsvegi einnig. Ég sá ekki betur en bros léki um varir ráðherrans þegar frá því var greint að nýsamþykkt lög á Alþingi opnuðu á frekari möguleika einkaframkvæmdar og gjaldtöku í samgöngukerfi landsmanna en áður hefur verið.
Í frétt Sjónvarpsins var okkur sagt að ekki hefði enn verið afráðið hvaða fjármögnunar- og rekstraformsleið yrði valin við þessar tvær vegaframkvæmdir. Það yrði kannað sagði Sturla Böðvarsson: "En ég hef gert ráð fyrir því að einkaframkvæmdarleiðin gæti orðið besti kosturinn!"
Það var nefnilega það. Þessi ummæli Sturlu Böðvarssonar koma mér ekki sérlega á óvart. Enda þótt skýrsla Ríkisendurskoðunar frá í sumar hafi sýnt að einkaframkvæmd í vegagerð væri óhagkvæmur kostur fyrir greiðendur vegaframkvæmda lætur Sturla Böðvarsson sér það í léttu rúmi liggja. Hann er búinn að ákveða með sjálfum sér að einkaframkvæmdin sé besti kosturinn. Við skulum ekki gleyma því að útboð er eitt, einkaframkvæmd annað. Flestar vegaframkvæmdir Vegagerðar ríkisins eru boðnar út og hefur enginn neitt við slíkt að athuga. Einkaframkvæmd gengur hins vegar út á að einkaaðila er afhentur vegur – þess vegna þjóðvegur – til rekstrar og honum veitt heimild til að innheimta vegatolla! Fjárfestar ráðast ekki í slíkar framkvæmdir nema til þess að hafa góðan arð af fjárfestingu sinni. Arðurinn kemur að sjálfsögðu upp úr vösum vegfarenda, upp úr okkar vösum. Vegagerðin er hins vegar ekki rekin til þess að skapa eigendum sínum arð heldur til þess eins að búa til góða vegi.
En mér er spurn: Ber ráðherra ekki að gæta hagsmuna skattborgara? Ber honum ekki að gæta hagsmuna þeirra sem koma til með að borga brúsann? Getur verið að ráðherrann sé upptekinn við þá hugsun eina að þjóna hagsmunum fjárfesta sem vilja gera út á peningabuddu almennings? Eða lætur fráfarandi ráðherra stjórnast af blindri trú á hugmyndafræði, algerlega óháð því hvað reynslan kennir. Já, fráfarandi ráðherra! Eru engin takmörk fyrir því hvað ráðherra sem á hálfan annan mánuð eftir í embætti getur ákveðið fyrir hönd ríkissjóðs? Sturla Böðvarsson hefur forsómað að láta gera Suðurlandsveg öll þessi ár. Er til of mikils mælst að hann haldi að sér höndum síðustu daga sína í samgönguráðuneytinu og láti eftirmann sinn í starfi um framhaldið?