Fara í efni

SAMHELDNI SVEITANNA OG TORFI Á TORFALÆK

Mikið fjölmenni var í Blönduóskirkju í gær við útför Torfa Jónssonar, fyrrum bónda á Torfalæk, í Húnavatnssýslu.
Torfi var föðurbróðir minn og var ég viðstaddur útförina af þeim sökum auk þess sem Torfi var mér kær frændi og vinur.
Athyglisvert var að hlýða á minnigarorð séra Guðna Þórs Ólafssonar, prófasts,  um Torfa og skynja hve mjög hann hafði komið við sögu í uppbyggingu síns héraðs. Samheldni manna birtist með táknrænum hætti á þéttsetnum kirkjubekknum og við erfidrykkju, þar sem vinir og skyldmenni komu saman.
Þarna hitti ég margan góðan frændann og frænkuna, og samstarfsfólk fyrr og nú.
Torfi Jónsson var blár á litinn í pólitík, eins og blátt bindið á Sturlu Böðvarssyni, Pálma á Akri og fleirum góðum og gegnum íhaldsmönnum sem kvöddu sinn gamla samherja. En þarna var líka Framsókn og að sjálfsögðu VG með sjálfan Jón Bjarnason, þingmann kjördæmisins, ráðherra landbúnaðar og sjávarútvegs - með frænku okkar Torfa, eiginkonu sína, Ingibjörgu Sólveigu Kolka, sér við hönd.
Svona er Ísland! Öll saman!! Og svona á það að vera nú sem aldrei fyrr - öll saman -  hvar á landinu sem við búum, hvort við erum ung eða aldin og hvernig sem við erum á hinn pólitíska lit.
Nú þarf Ísland á samheldni að halda. Ekki hlýðinni ógagnrýninni samheldni heldur hnarrreistri og sjálfstæðri!  Jarðarför við úfinn Húnaflóann í dag minnir á hve frjór jarðvegurinn er á Íslandi fyrir því að standa saman á þennan hátt. Samheldni íslensku sveitanna getur kennt okkur margt.

Eftirfarandi eru örfá orð sem við systkinin Jón Torfi, Ingibjörg, Björn og ég sendum frá okkur í dag um frænda okkar: 
"Þá er síðastur þeirra Torfalækjarbræðra fallinn frá, Torfi Jónsson, föðurbróðir okkar. Um hann eigum við góðar minningar allt frá blautu barnsbeini, er við vorum ásamt foreldrum okkar gestkomandi að Torfalæk og síðar á eigin vegum með fjölskyldur okkar. Alltaf mættum við velvilja og hlýju af hálfu þeirra hjóna Ástu og Torfa, sem ævinlega tóku á móti okkur með opinn faðminn.
Á Torfalæk var myndarbragur, regla yfir öllu og yfirbragð allt á þá lund að hugsað væri stórt og til framfara. Maður fylltist stolti yfir ættartengslum við Torfalæk.
Torfi Jónsson var félgslyndur maður, hafði ríkar skoðanir á þjóðmálum en hlustaði vel eftir sjónarmðium annarra. Hann var maður rökræðu, alvarlegur og glettinn í senn.
Að leiðarlokum þökkum við margar góðar stundir. Hlýtt bros Torfa frænda okkar mun fylgja minningunni um hann.
Sigurlaugu og allri fjölskyldu Torfa færum við samúðarkveðjur.
Jón Torfi, Ögmundur, Ingibjörg og Björn"