Fara í efni

SAMKENND Í HÖRPU


Við áttum það sameiginlegt við Grímur Thomsen að finnast óþægilegt að stíga inn í Roskilde kirkju -  dómkirkjuna dönsku suður af Kaupmannahöfn. Kannski voru það allir kóngarnir í kistum sínum sem mögnuðu upp einhvern óhugnað af minningu liðinna valdstjórnaralda eða í mínu tilviki sú tilfinning að íburðurinn hafi orðið til vegna þrælavinnu. Þessa tilfinningu hef ég oft fengið þegar ég hef heimsótt kastala og hallir í Evrópu. Aldrei hef ég getað notið handverksins og fegurðarinnar til fulls. Alltaf þessi tilfinning um misnotkun, valdníðslu og yfirgang.
Sama kom upp í hugann þegar ég kom í Hörpuna í kvöld á opnunarhátið. Við - ríkisstjórnin; við sem búum við efnalegt öryggi í þjóðfélaginu tókum ákvörðun um að ljúka verkinu - engin fórn - á sama tíma og við skárum niður við öryrkja. Slæm tilfinning sem við vorum minnt á með trumbuslætti mótmælenda þegar við komum til opnunarhátíðarinnar  í kvöld. Allt orkar þetta vissulega tvímælis.
Hinu vil ég ekki leyna að ég hreifst af Hörpu og því sem þar fór fram innandyra. Ég held ég muni aldrei gleyma þessari stund í Hörpunni og var þá áhrifaríkast þegar risakór og margir allra bestu söngvarar þjóðarinnar sungu þjóðsönginn okkar. Salur og svalir tóku undir:
Íslands þúsund ár, Íslands þúsund ár, eitt eilífðar smáblóm ...
Þarna vorum við minnt á mikilvægi samkenndarinnar. Og í framhaldinu að gleyma ekki ábyrgðinni gagnvart þeim sem voru utandyra - ekki hnípið fólk - heldur reitt og heitt í hamsi að krefjast fullra mannréttinda.

Staðreyndin er þó sú að önnur hlið er til en sú á "almannarýminu", sem ég vék að hér að framan, þ.e. hinum evrópsku skrauthöllum yfirstéttar sem nú eru öllum opnar til sýnis. Það er vissulega til á því jákvæð sýn, að eiga glæsileg salarkynni þar sem við hlúum að því sem við öll getum notið saman. 
Ég man þegar ég lenti á alþjóðaflugvelli heimsborgarinnar NewYork í fyrsta skipti og drakk inn upplifunina. Allt lágreist og fremur vesælt. Engu til kostað í þetta almannarými. Ég vissi hins vegar að ríkidæmið var til staðar: Í einkarýminu, á heimilinu, í golfklúbbnum, prívatklúbbnum; í prívatumgjörðinni - ekki í almannarýminu.

Og í kvöld - þegar inn í margnefnt almannarými var kominn hann Víkingur Heiðar Ólafsson, okkar stórkostlegi músíkant og listamaður að leika Ave Maríu hans  Sigvalda Kaldalóns á svartan Hörpu-flygilinn - þá fannst mér að hún Harpa ætti rétt á sér - bæði þótti mér hún falleg með stórfenglegum salarkynnum sínum, ekki íburðarmiklum en áhrifaríkum,  og síðan var það innihaldið!!!. Frábært! Íslenkir tónlistarmenn, Kærar þakkir.