SAMMÁLA BSRB, BHM OG KÍ
Á sínum tíma var umsjón með atvinnuleysisbótum hjá stéttarfélögum. Það fyrirkomulag hafði ýmsa kosti en var þó barn síns tíma. Atvinulaus smiður leitaði til síns stéttarfélags um fyrirgreiðslu og aðstoð. Óbeint má ætla að stéttarfélaginu hafi verið haldið við efnið með þessum tengslum; það hafi orðið betur meðvitað um atvinnuástandið og þar með atvinnuleysi en það ella væri. Þetta fyrirkomulag endurspeglaði tíma félagslegs stöðugleika - eigum við að segja óumbreytileika: Eitt sinn smiður, alltaf smiður. Eitt sinn verkfræðingur, alltaf verkfræðingur. Eitt sinn sjúkraliði, alltaf sjúkraliði. Á tímum endurmenntunar og félagslegs hreyfanleika getum við hins vegar ekkert gefið okkur lengur að sá sem nemur eina iðn eða leggur stund á tiltekið fag haldi sig við það út starfsævina.
Á fyrirkomulagi umsýslu atvinnuleysisbóta verður síðan breyting á tíunada áratug síðustu aldar. Umsjónaraðilum atvinnuleysisbóta var þá fækkað verulega í hagræðingarskyni. Á höfðuborgarsvæðinu urðu þannig tveir umsjónaraðilar í stað fjölmargra stéttarfélaga áður. Í kjölfarið tekur Vinnumálastofnun umsýsluna algerlega yfir. Í aðdraganda breytinganna hafði sú gagnrýni orðið sífellt háværari að við byggjum við úrelt fyrirkomulag, óeðlilegt væri að stéttarfélögin hefðu umsýsluna með hendi. Eðlilegra væri að sameiginleg almannaþjónusta annaðist fyrirgreiðsluna og væri þar eitt látið yfir alla ganga. Hugsunin var þá sú að stéttarfélögin ættu að vera eftirrrekstrar- og hagsmunagæsluaðili fyrir hinn atvinnulausa ekki rekstraraðili. Þetta þótti mér og þykir enn fullkomlega eðlilegur háttur að hafa á.
En viti menn. Innan verkalýðshreyfingarinnar eru enn straumar - og virðast þeir jafnvel vera að eflast - sem ganga í þá átt að hreyfingin stofnanavæðist og gerist að uppistöðu til rekstrarstofnun; hverfi frá upprunalegu ætlunarverki sínu sem baráttu- og hagsmunagæsluaðili en leggi þeim mun meiri áherslu á hlutverk sitt sem rekstrarlegur þjónustuaðili. Skyldi það vera gott fyrir launafólk? Ekki tel ég svo vera. Skyldi það vera gott fyrir hina atvinnulausu? Nei, ekki tel ég svo vera.
Ekki er ég einn um þessa skoðun. Á vefsíðu BSRB segir: „BSRB, KÍ og BHM leggjast ...alfarið gegn því að atvinnuleitendur verði flokkaðir á grundvelli félagsaðildar í stéttarfélög þegar kemur að þjónustu til atvinnulausra. Það er jafnframt skoðun samtakanna að málefni atvinnuleitenda séu opinbert velferðarverkefni þar sem gæta þurfi jafnræðis og því sé farsælast að opinber aðili hafi yfirumsjón með því."
Sammála!