Sammála Garra um þjóðsönginn
Hjartanlega er ég sammála Garra í lesendabréfi hér á síðunni um að láta fara fram "þjóðarblómsatkvæðagreiðslu" um þjóðsönginn. Atkvæðagreiðslan um þjóðarblómið er frábær hugmynd og skal ég glöð una hverjum þeim úrslitum sem meirihlutinn skilar okkur. Þetta er ágæt æfing í lýðræðinu. Mjög margir vilja breyta um þjóðsöng, finnst þjóðsöngurinn of trúarlegur. Þannig spyr Garri þig í lesendabréfinu Ögmundur: "Ert þú á þeirri skoðun að það ætti að skipta um þjóðsöng eða ekki? Samrýmist það trúfrelsisákvæðum stjórnarskrárinnar að hafa svona trúarlegan söng og er þetta ekki nokkuð langt frá sósíalískri jafnréttishugsun, þetta yfirstéttarkjaftæði úr honum Matthíasi gamla svo ágætur sem hann var?" Ég er nokkuð sammála Garra og tek undir hans spurningu. Hvað finnst þér Ögmundur?
Sunna Sara
Þakka þér bréfið Sunna Sara. Sannast sagna er úr vöndu að ráða. Að sumu leyti er ég sammála ykkur Garra. Hins vegar finnst mér þjóðsöngurinn mjög fallegur og ekki heyri ég trúarboðskapinn. Sjálfur er ég ekki í þjóðkirkjunni en fer alltaf í kirkju í upphafi þings uppá stemninguna ef svo má að orði komast. Eins er það með þjóðsönginn. Hann er vissulega trúarlegur en ég heyri ekki boðskapinn, ég upplifi bara stemninguna, og hún nær yfir hnöttinn allan ofg spannar öll trúarbrögð. En ég tek undir, að þetta á að vera lýðsræðisleg ákvörðun og þess vegna styð ég "þjóðarblómsatkvæðagreiðslu".
Kveðja,
Ögmundur