Fara í efni

SAMMÁLA VERKALÝÐSHREYFINGUNNI UM LÁGMARKSLAUN

heildarsamtök
heildarsamtök


Enn er komið  fram komið á Alþingi þingmál þar sem lagt er til að leyfileg lágmarkslaun í landinu verði ákveðin með lögum en ekki eins og hingað til í kjarasamningum. Lægstu laun taki með öðrum orðum mið af lagaákvörðun Alþingis, þótt vissulega verði heimilt að semja um önnur og betri kjör. Þrír þingmenn Vinstrihreyfiingarinnar græns framboðs standa að þingmálinu að þessu sinni og er fyrsti flutningsmaður Lilja Rafney Magnúsdóttir en hún hefur látið að sér kveða innan verkalýðsfélaga á Vestfjörðum í þágu láglaunafólks. Hugsunin með þingmálinu er að styrkja stöðu þess.

Innan verkalýðshreyfingarinnar er þó almenn andstaða gegn lögbindingu lágmarkslauna og er ég þeim sjónarmiðum sammála og hef jafnan verið þegar þessi mál hefur borið á góma áður á Alþingi. (sjá varðandi umræðu nú m.a.: http://www.ruv.is/frett/deilt-um-naudsyn-laga-um-lagmarkslaun )

Í Bandaríkjunum eru  lágmarkslaun lögbundin þótt viðmiðið sé mismunandi í einstökum ríkum. Sama gildir í mörgum Evrópu, en þó síst þar sem verkalýðshreyfing er sterk. Þótt margt megi að íslenskri verkalýðshreyfingu finna  þá hefur hún mörgu  áorkað í tímans rás og komið mörgum þjóðþrifamálum í höfn og í alþjóðlegum samanburði er hún sterk.

Íslensk verkalýðshreyfing hefur fengið því áorkað að lögbundið er ákvæði þess efnis að óheimilt er að greiða lægri laun en lægstu umsömdu launataxtar kveða á um. Það er meira en sagt verður víðast hvar erlendis og tel ég þetta vera heppilegasta fyrirkomulagið til að forðast undirboð, „social dumping" sem er höfuðréttlæting margra sem berjast fyrir lögbindingu lágmarkslauna. Með samningsbundnum kjörum er það verkalðyshreyfingin sem hefur aðhalds- og eftirlitshlutverkið fremur en þingið sem fremur hefði slíkt hlutverk með hendi ef af lögbindingu yrði.

Atvinnurekendur vilja margir afnema launataxta með öllu. VR gekkst inn á þá línu illu heilli og semur aðeins um gólfið. Opinberi geirinn hér á landi hefur hins vegar  viðhaldið taxtalaunakerfi; kerfi þar sem samið er um kjörin en forstjórinn eða forstöðufólkið  er ekki einrátt um þau. Slíku geðþóttakerfi, stjórnað að ofan, reyndi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar að koma á með lagasetningu árið 1996. Það tókst ekki.  Sem betur fer.

Auðvitað er það svo að baráttusaga tuttugustu aldarinnar einkenndist af því að sigrar náðust, iðulega á vinnumarkaði, og var ávinningurinn síðar tryggður með lögum og gilti þá rétturinn fyrir alla. Þetta var eðlilegt og vil ég engan veginn vinda ofan af öllum lögbundnum  réttindum og færa þau inn á samningssviðið að nýju einsog ASÍ og SA hafa stundum viljað og nefni ég þar ýmsa þætti almannatrygginga og starfsendurhæfingu sem þessir aðilar vilja að séu tryggðir í samningum og á verksviði samningsaðila síðan að framfylgja.

Um launin gegnir hins vegar að mínu mati öðru máli. Lögbinding lágmarkslauna hefur hvergi tryggt ásættanleg lífskjör fyrir hina lægstu. Því síður hefur slíkt fyrirkomulag orðið til að hjálpa launafólki almennt. En atvinnurekendur eru víðast hvar ekki ósáttir við slíkt kerfi. Þeir vilja nefnilega afnema kjarabaráttuna og telja innlegg af þessu tagi vera  í þá veru: Kveðið verði á um lágmarkslaun i lögum og síðan fái einstaklingarnir greitt í samræmi við frammistöðu í starfsmannaviðtölum. Svona er þetta í alvöru víða í framkvæmd og færist í vöxt!

Nú er það svo að þótt hér séu ekki lögbinding lægstu launataxta þá eru engu að síður kjör lægstu hópanna utan vinnumarkaðar tryggð með lögum: Kjör atvinnulausra, öryrkja og aldraðra. Allt er þetta ákvarðað á Alþingi. Erum við svo ánægð með niðurstöðuna að við eygjum þar fyrirheitna landið fyrir launafólk? Launalög í stað kjarabaráttu!

Á þessi sjónarmið hef ég áður bent sem áður segir, einnig í vor þegar þessi mál bar á góma í þingflokki VG. Ég sagði þá jafnframt að ef fyrrnefnt þingmál, sem þá var í burðarliðnum, yrði til þess að beina sjónum að kjörum láglaunafólks, þá væri vissulega til nokkurs unnið því slík umræða  gæti orðið til góðs. En þá yrði líka að taka þá umræðu.

Ég hef lengi talað fyrir því að reynt yrði að ná heildarsamkomulagi um hvert skuli vera launabilið í kjarasamningum bæði á almennum vinnumarkaði og hjá ríki og sveitarfélögum. Þessu ætti alla vega að vera hægt að framfylgja hjá hinu opinbera væri til þess pólitískur vilji og vilji hjá smatökum launafólks að sama skapi. Hér áður fyrr talaði ég fyrir því að sá hæsti yrði aldrei hærri en tvöföld kjör hins lægsta. Í seinni tíð hef ég nefnt einn á móti þremur. Færi svo að við samþykktum að setja lágmarkslaun með lögum, þá yrði jafnframt að fá fram hvort vilji væri til þess að lögbinda hæstu laun. Ég óttast að í viðleitni til að bæta kjör láglaunafólks yrði lítið hald í því að lögbinda kjör þess án þess að taka jafnframt á hæstu launum og kjarabilinu í heild sinni. En vissulega er þarna kominn flötur á bráðnauðsuynlegri umræðu og er mikilvægt að nota tilefnið til að efna til hennar og kalla þar til verkalýðshreyfinguna. Yrði þessi niðurstaðan kynni málið að taka á sig ásættanlegri mynd.

Hið jákvæða í hugsuninni um lögbindingu lágmarkslauna er viðmiðun í vísitölu um áætlaðan framfærslukostrnað. Þetta er vissulega eftirsóknarvert viðmið að ná fram en sé því ekki framfylgt í raun eins og ástæða er til að óttast með hliðsjón af reynslu annarra þjóða og okkar eigin reynslu hvað varðar kjör öryrkja og atvinulausa sem eru ákveðin með lögum,  þá er sú hætta fyrir hendi að með þessari kerfisbreytingu glatist aðhaldið sem við nú höfum frá verkalýðshreyfingunni án þess að hafa í hendi að nokkuð hafi raunverulega áunnist.   

Eg í lokin: Alþingi er ekki óvant því að hafa afskipti af kjarasamningum og kjaramálum.  Ekki verður sagt að sú aðkoma hafi verið til að hrópa húrra fyrir. Hér er um að ræða lög á verkföll aftur og ítrekað, að ógleymdum náttúrlega lögum sem þingið setti um sín eigin kjör, fyrst viðbótargreiðslur ofan á kjör sem Kjararáð hafði úrskurðað þingmönnum lögum samkvæmt og síðan hin illa þokkuðu eftirlaunalög. Til þessa getur aðkoma Alþingis að kjaramálum varla  talist traustvekjandi. En vissulega getur þetta sem annað tekið breytingum og batnandi mönnum er best að lifa. Höfum þó þessa forsögu í huga.