Fara í efni

Samstaða skilaði árangri árið sem er að líða

Birtist í Mbl
Árið sem er að líða hefur verið viðburðaríkt. Framan af ári settu frumvörp ríkisstjórnarinnar um vinnulöggjöf, lífeyrismál og réttindi og skyldur opinberra starfsmanna mjög svip á stjórnmálaumræðuna hér innanlands. Ljóst var að ríkisstjórnin hafði farið í smiðju nýsjálenskra frjálshyggjumanna sem ráðlagt höfðu henni að keyra í gegnum þingið umdeildar breytingar á fyrri hluta kjörtímabils í þeirri von að allt væri gleymt og grafið næst þegar gengið yrði til kosninga. Frumvörp ríkisstjórnarinnar gengu öll út á að draga úr réttindum launafólks og torvelda kjarabaráttu en efla og treysta forstjóravald.

Átakavor

Eindregin samstaða myndaðist fljótlega með opinberum starfsmönnum um þau mál sem snertu þá sérstaklega og var af þeirra hálfu ráðist í útgáfu upplýsingarita og umfangsmikil fundaherferð fylgdi í kjölfarið. Að þessu stóðu sameinuð samtök opinberra starfsmanna. Smám saman breikkaði þetta samstarf og náði að lokum til alls launafólks í landinu. Var ánægjulegt að sjá að samtök voru jafnvel reiðubúin að veita öðrum stuðning í málum sem snertu þau ekki beint. Þessi mikla samstaða launafólks skilaði þeim árangri að ríkisstjórnin sneið suma alvarlegustu annmarkana af vinnulöggjafarfrumvarpinu og einnig af frumvarpinu um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Eftir sem áður eru báðar þessar lagasmíðar slæmar því þær byggja á forræðishyggju og fortsjóravaldi á kostnað lýðræðis og réttinda almennra starfsmanna.

Sigur í lífeyrismálum

Óhætt er að segja að niðurstaðan í langvarandi deilum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sem reyndar er rangnefni því aðild að sjóðnum eiga margir aðrir en ríkisstarfsmenn, marki tímamót. Hér er um að ræða einn mikilvægasta áfanga í réttindabaráttu launafólks um langan tíma. Eftir mikla fundaherferð sem samtök opinberra starfsmanna stóðu sameiginlega að á fyrri hluta ársins, dró ríkisstjórnin til baka frumvarpsdrög sem skert hefðu lífeyrisréttindin verulega, ekki einvörðungu þeirra sem eru í starfi og eru enn að ávinna sér réttindi heldur einnig hinna sem þegar eru komnir á lífeyri. Hörð viðbrögð og órjúfanleg samstaða samtaka opinberra starfsmanna skapaði launafólki samningsstöðu: Ríkisstjórnin lýsti sig reiðubúna að setjast að samningaborði á jafnræðisgrundvelli. Eftir stranga og langa samningalotu sem stóð í allt sumar og haust lá niðurstaða fyrir í vetrarbyrjun.

Það hafði um nokkurt skeið verið ríkjandi skoðun í þjóðfélaginu að nauðsynlegt væri að gera breytingar á Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Frá sjónarhóli ríkissjóðs er sjóðurinn þó engan veginn sá baggi sem menn vildu vera láta. Þannig hefur ríkið t.d. um langt árabil fengið 40% af útlánum sjóðsins vaxtalaust til ráðstöfunar og vegna LSR hafa sparast milljarðar í almannatryggingakerfinu. Hitt er svo annað mál að nauðsyn þótti að mynda sjóð þar sem jafnan stæðust á greiðslur og fyrirsjáanleg útgjöld.

Ýmsir urðu til að mótmæla samningum um breytt lífeyriskerfi. Ekki treystu þessir gagnrýnendur sér til að kvarta opinberlega yfir því að fólk hefði til hnífs og skeiðar á efri árum. En fljótlega kom í ljós að harðasta andstaðan gegn breytingum á lífeyriskerfinu kom frá þeim aðilum sem eru andvígir samtryggingarsjóðum og vilja beina sparnaði einstaklinga inn til fjárfestingarfyrirtækja. Þessi sjónarmið studdu atvinnurekendur. Aldrei þessu vant lét ríkisstjórnin mótblástur úr Garðastræti ekki fipa sig í þessu máli.

Lærum af reynslunni

Hins vegar hefur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar farið að vilja atvinnurekenda í flestum málum öðrum. Á sama tíma og lokun geðdeildar að Arnarholti kom til umræðu á Alþingi voru þar til umfjöllunar fjáraukalög þar sem á meðal annars var gert ráð fyrir aukafjárveitingu til sérfræðinga ríkisstjórnarinnar í einkavæðingu. Þar er ekkert látið á skorta. Hins vegar eru gæðin í málflutningnum í litlu samræmi við fjárveitingarnar. Þannig var til dæmis röksemdafærsla stjórnvalda fyrir því að breyta Pósti og síma í hlutafélag ekki upp á marga fiska. Sérfræðingar ríkisstjórnarinnar höfðu ekkert annað fram að færa en að allir hinir væru að gera það ­ þess vegna þyrftum við líka, af því bara.

Dr. Jane Kelsey, lagaprófessor frá Nýja-Sjálandi, sem kom hingað til lands um miðjan desember, flutti mjög fróðlegt erindi um þær þjóðfélagsbreytingar sem hrundið hefur verið í framkvæmd í heimalandi hennar en óvíða hefur verið gengið eins hart fram í anda peningafrjálshyggju og einmitt þar. Í máli hennar kom fram að breytingarnar voru framkvæmdar samkvæmt pólitískri hugmyndafræði en lítið gefið fyrir dóm reynslunnar. Þannig má segja að hægri menn og vinstri menn hafi haft með sér hlutverkaskipti því fyrr á öldinni höfðu eindregnir vinstri menn og sósíalistar hugmyndafræði upp á vasann sem þeir vildu laga samfélagið að en hægri menn voru íhaldssamari og vísuðu óspart til sögunnar og reynslunnar.

Afleiðingar þeirrar stefnu að einkavæða almannaþjónustuna eru smám saman að koma í ljós. Þannig hefur verið sýnt fram á að vatnsveitur, rafmagnsveitur, sorpeyðing, heilbrigðisþjónusta sem einkavædd hefur verið víðs vegar um heiminn á síðustu árum hefur safnast á hendur örfárra fjölþjóðlegra auðhringa sem nú soga til sín án afláts skattpeninga í krafti einokunaraðstöðu sinnar. Þetta verður að sjálfsögðu ekki stöðvað fyrr en stjórnmálamönnum verður gert að færa haldgóð rök fyrir máli sínu og ekki látnir komast upp með að svara spurningum sem varða almannaheill út í hött. Það skyldi aldrei vera að oftrú á hugmyndafræði, hina réttu skoðun, geti verið varasöm?

Í anda hugmyndafræði reynir ríkisstjórnin nú að skapa launakerfi þar sem dregið verði úr vægi grunnlauna en hluti launa verði viðbót þar ofan á. Þessi viðbót eða launaviðbit einsog það hefur verið nefnt, myndi hins vegar ekki hlotnast öllum og yrði á valdi forstöðumanna og forstjóra. Þessari breytingu er einnig verið að reyna að koma á annars staðar á Norðurlöndum gegn harðri andstöðu verkalýðshreyfingarinnar. Þetta fellur vel að forstjórahugmyndafræði ríkisstjórnarinnar en gengur þvert á kröfur samtaka launafólks um almennar grunnkaupshækkanir.

Styrkjum innviðina

Það kom mörgum óneitanlega óþægilega á óvart að samninganefnd Reykjavíkurborgar skyldi bjóða upp á svipaða hugmyndafræði og fjármálaráðuneytið við upphaf kjaraviðræðna með áherslu á arðsemi, árangursmat og hin svokölluðu viðbótarlaun. Enda þótt árangursmat á vinnustöðum kunni sums staðar að eiga við, geta viðsemjendur launafólks hvort sem þeir eru hjá ríki, sveitarfélögum eða á almennum markaði, ekki firrt sig ábyrgð á því að hækka almennt grunnkaup hjá öllu því starfsfólki sem býr við lága kauptaxta, einnig hjá þeim sem hafa skerta starfsgetu og eru ekki líklegir til að standast strangasta árangursmat og arðsemismælingar. Vissulega má meta árangur á margvíslegan hátt og við tilteknar aðstæður getur verið rétt að meta árangur til launa. En um hitt verður vart deilt að í almannaþjónustunni, í skólastofunni, á sjúkraganginum eða í löggæslunni verður erfitt að koma við árangursmati svo eitthvert vit sé í. Hér er einfaldlega um að ræða þjónustu sem á ekki að lúta lögmálum markaðar.

Nýsjálenski fyrirlesarinn sem vitnað var til benti sérstaklega á, að alvarlegasta tjónið sem unnið hefði verið á nýsjálensku þjóðfélagi hefði verið að umbreyta allri velferðarþjónustunni í eins konar fyrirtæki sem gert var að hugsa meira um arðsemi en þjónustu við þegnana. Og það er óhugnanleg staðreynd en umhugsunarverð, að það var Verkamannaflokkurinn sem reið á vaðið með þessar breytingar, uppnuminn af því hve nútímalegur hann væri með nýjustu hugmyndafræðina upp á vasann.

Dr. Kelsey sagði að menn hefðu ekki áttað sig á því fyrr en um seinan að forsenda kröftugs atvinnulífs væri öflug samfélagsþjónusta og þéttriðið öryggisnet velferðarsamfélagsins. Þannig væru frjáls markaður og samfélagsleg velferðarþjónusta ekki andstæður heldur hvort um sig og í góðri sátt forsenda þess að þjóðfélagið dafnaði. Léleg samfélagsþjónusta,misskipting og ójöfnuður dregur hins vegar máttinn úr fólki og veikir þar af leiðandi allt efnahagslíf.

Siðlausar kvótagjafir

Löngu er kominn tími til að Íslendingar reyni í alvöru að sporna við aukinni misskiptingu í landinu. Fiskkvóti er að safnast á örfárra manna hendur sem fyrir opnum tjöldum braska með sameiginlega auðlegð þjóðarinnar. Afnema þarf auðsöfnun í skjóli einkaleyfa. Afnema þarf gjafir til útgerðarfyrirtækja og gera eigendum þeirra að greiða skatta og gjöld einsog af öðrum atvinnurekstri. Nú eru menn í óða önn að koma gjafafénu fyrir í útlöndum og því ekki seinna vænna að stöðva þennan ósóma og sjá til þess að mönnum verði gert að skila til baka eignum sem urðu til með þessum hætti.

Og á sama tíma og þúsundir manna ganga um atvinnulausar og fátækt verður sýnilegri með hverjum deginum sem líður er stórefnafólki veittur skattafsláttur af arði sem nemur hundruðum milljóna. Þannig voru lögin um fjármagnstekjuskatt sem samþykkt voru á árinu enn ein varðan á leið þjóðarinnar til aukinnar misskiptingar. Þessa vegferð þarf að stöðva. Og hér hafa verkalýðshreyfingin og félagsleg öfl verk að vinna. Að því verki þurfa menn að beina öllum kröftum sínum.

Það er einnig hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að standa vörð um vinnustaðinn og alla sem þar starfa. Og það hlutverk á hún að rækja á gagnrýninn hátt, óháð allri flokkapólitík. Verkalýðshreyfingin fæst að sjálfsögðu við pólitík og er þannig rammpólitísk í eðli sínu. En flokkspólitísk er hún hins vegar ekki enda eru innan hennar vébanda einstaklingar úr öllum fylkingum stjórnmálanna. Sérstaða verkalýðshreyfingarinnar liggur í því að tryggja að jafnræði sé með launafólki og þeim sem fara með völdin í þjóðfélaginu hverju sinni. Hún á að stuðla að félagslegu verðmætamati í þjóðfélaginu öllu, ekki síður hjá þeim sem fara fram í nafni félagshyggjunnar en hinna sem slíkum sjónarmiðum eru andvígir.

Trúverðug stefna og forgangsverkefni

 Ef ekki væri fyrir hendi kröftug verkalýðshreyfing hefði launafólk veika stöðu gagnvart eigendum og stjórnendum fyrirtækja og stofnana og á vettvangi stjórnmálanna hefði stefnumörkun oft orðið á annan veg en raun ber vitni. Verkalýðshreyfingin er þannig ein af meginuppistöðum fjölþátta samkeppnisþjóðfélags og í raun er hægt að fullyrða að frjáls og gagnrýnin verkalýðshreyfing sé forsenda lýðræðis.

Það er mjög mikilvægt að verkalýðshreyfingunni takist að blása til gagnsóknar gegn þeirri stefnu sem er að leiða þjóðina inn í öngstræti misskiptingar og misréttis. Ekki leikur á því nokkur vafi að þegar verkalýðshreyfingunni hefur tekist að sameinast um trúverðuga stefnu í atvinnu-, skatta-, velferðar- og launamálum mun það hafa afgerandi áhrif á vettvangi stjórnmálanna, ekki aðeins til skamms tíma heldur á stjórnmálaþróun komandi ára.

Á þessu ári hefur aflast meira en dæmi eru um, enda verður mönnum tíðrætt um góðæri. Það er verkefni í kjarasamningunum sem nú eru framundan að sjá til þess að góðærið skili sér til þjóðarinnar allrar, ekki fáeinna útvalinna. Og að sjálfsögðu á það að vera forgangsverkefni að tryggja að þær kjarabætur sem um verður samið skili sér á samsvarandi hátt til atvinnulausra, öryrkja og lífeyrisþega.