SAMTÖK IÐNAÐARINS HUGSI ÚT FYRIR (SINN) RAMMA
08.05.2016
Samtök iðnaðarins minna eina ferðina enn á stærð sína eða smæð - eftir atvikum.
Í grein í helgarútgáfu Morgunblaðsins kveðst framkvæmdastjóri SÍ vilja fá samgöngukerfi landsmanna afhent í hendur félagsmönnum sínum til að hagnast á.
Í stað þess að styrkja við frumlega hugsun og nýjungar í framleiðslu og þjónustu, staðnæmast samtökin við það sem þegar er búið að skapa eða þar sem kúnninn er færður þeim nánast í fjötrum. Þannig vilja Samtök iðnaðarins einkavæða innviði samfélagsins svo einkaaðilar geti gert sér þá að féþúfu og samgöngukerfið vilja þeir fá í sínar hendur í sama augnamiði.
En viljum við ekki geta ekið um vegi landsins, nýtt okkur flugvelli og hafnir án þess að þar troði sér inn milliliðir og rukkarar til að teygja sig ofan í vasa okkar?
Við erum orðin vön þessum skilaboðum frá Samtökum Iðnaðarins. Hvernig væri að samtökin reyndu að hugsa ögn út fyrir rammann svo notaðaur sé ofnotaður frasi?