SAMTÖK UM SAMFÉLAGSÁBYRGÐ
Hinn 1. maí síðastliðinn voru stofnuð Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum. Gengið var frá stofnskrá og kjörin fimm manna stjórn. Formaður er Árni Guðmundsson en hann hefur sinnt verkalýðsbaráttu og æskulýðsstarfi um langt árabil og meðal annars margoft beitt sér gegn áfengisauglýsingum. Í fréttatilkynningu frá samtökunum segir að það sé „afar sérstakt að stofna þurfi sérstök samtök til þess að þess eins að berjast fyrir því að farið sé eftir gildandi lögum í landinu? Brot á lögum um bann við áfengisauglýsingum verða sífellt grófari og ómerkilegri. Áfengisauglýsingar í strætóskýlum við lok grunnskólaprófa er dæmi um það hve langt er seilst og dæmi um á hve lágt plan þessi mál eru komin. Lögvarinn réttur barna og unglinga til að vera laus við áfengisáróður er algerlega virtur að vettugi. Meðan að svo er þá er rík þörf fyrir samtök eins og Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum."
Vesaldómur samfélagsins virðist eiga sér engin takmörk. Fjölmiðlar skirrast þannig ekki við að birta auglýsingar sem stríða gegn landslögum, sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu sem standa að Strætó bs ljá lögbrjótunum strætóskýlin undir áróður sinn, sama gildir um marga aðra opinbera staði. Andvaraleysi löggjafans er þá ekki síður alvarlegt. Fyrir Alþingi liggur frumvarp sem flutt hefur verið margoft þar sem fram koma breytingartillögur við áfengislöggjöfina sem myndu stoppa upp í möguleika til að ganga á snið við lögin ( sjá hér :http://www.althingi.is/altext/135/s/0063.html ). Þetta frumvarp hefur verið flutt aftur og ítrekað án þess að nokkuð sé með það gert.
Vonandi tekst nýstofnuðum Foreldrasamtökum að vekja samfélagið til vitundar um ábyrgð sína. Það hlýtur að verða fjölmiðlum, félagasamtökum, bæjarstjórnum, fyrirtækjum, Alþingi og ríkisstjórn umhugsunarefni að til þessa þurfi að koma.
Árni Guðmundsson hefur verið óþreytandi að vekja athygli á lögbrotum áfengissala. Nýlega vakti hann athygli á auglýsingaherferð Ölgerðar Egils Skallagrímssonar en það fyrirtæki hefur hlotið dóm vegna brota á lögum um bann við áfengisauglýsingum en heldur sig enn við sama heygarðshornið.
Árni segir m.a. á heimasíðu sinni ( http://addigum.blogspot.com/ ) :
„Enn á ný þverbrýtur Ölgerð Egils Skallagrímssonar lög um bann við áfengisauglýsingum. Fyrirtækið hefur þegar a.m.k. einu sinni hlotið dóm vegna brota á þessum lögum.
Sem endranær beinist áfengisherferð fyrirtækisins að börnum og unglingum sérstaklega. Af því tilefni eru strætóskýli á höfuðborgarsvæðinu þakin auglýsingum. Fullkomin lágkúra og algert virðingarleysi við börn og unglinga, sem eru eins og kunnugt er helstu viðskiptavinar Strætó. Og það er auðvitað með eindæmum að Strætó bs skuli taka þátt í þessu með því að legga biðskýli fyrirtækisins undir ólöglegar áfengisauglýsingar og gefa þar með sínum helstu viðskiptavinum langt nef.
Hvar er ákæruvaldið? og hvers vegna eru flest brot af þessum toga látin óátalin - Hvers vegna er einlægur og einbeittur brotvilji stjórnenda fyrirtækisins (og samsvarandi fyritækja) látin viðgangast misserum og árum saman.
Spyr sá sem ekki veit - en undrast afskiptileysi og fálæti stjórnvalda sem virðast hafa takmarkaðan áhuga á því að verja lögvarinn rétt barna- og ungmenna til að vera laus við áfengisauglýsingar. Sorglegt og ekki boðlegt í siðuðu samfélagi."
Aftur að nýstofnuðum samtökum. Rétt til aðildar að þeim samkvæmt fréttatilkynningu „eiga foreldrar, forráðmenn barna- og unglinga sem og aðrir þeir sem láta sig velferð barna og unglinga varða. Samþykkt var á stofnfundi að þeir sem skrá sig í samtökin fyrir 1. september n.k. teljist stofnfélagar. Þar til heimasíða samtakana kemst í gagnið er hægt að skrá sig í póstfangið addigum@simnet.is Árgjald félagsmanna er frjálst.