Fara í efni

“SAMVINNUFRUMVARPIД Í KASTJÓSI

Ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp um einkavæðingu og gjaldtöku í vasa fjárfesta í samgöngukerfinu. Frumvarpið er borið fram af samgönguráðherra, formanni Framsóknarflokksins, Sigurði Inga Jóhannssyni, sem fyrir kosningar lofaði því að hverfa frá áætlunum fyrirrennara sins í embætti sem vildi innleiða tolla og gjöld í samgöngukerfinu.

Þvert á kosningaloforð

Frumvarp ráðherrans er hins vegar sett fram til að fella kosningaloforðin úr gildi og opna á nákvæmlega þetta:
Samvinnuverkefni: Verkefni þar sem einkaaðili annast fjármögnun í heild eða að hluta eða tekur með öðrum hætti áhættu af gerð og rekstri opinbers mannvirkis, eftir atvikum með heimild til gjaldtöku fyrir notkun mannvirkisins á rekstrartíma. Samvinnuverkefni felur að jafnaði í sér samvinnu um eftirtalið: fjármögnun, áætlanagerð, hönnun, uppbyggingu mannvirkja, viðhald, rekstur og annað sem nauðsynlegt er til að ljúka megi framkvæmd og reka mannvirki í tiltekinn tíma  … Heimilt er að fjármagna samvinnuverkefni að hluta eða öllu leyti með gjaldtöku af umferð um mannvirki sem samvinnuverkefnið nær til. Veggjöld geta í heild eða að hluta staðið straum af byggingarkostnaði, viðhaldi, rekstri, þróun og eðlilegum afrakstri af fjárfestingu mannvirkis.”

Okkur ætlað að borga í vasa fjárfesta

Í Kastljósi Sjónvarps í kvöld var ekki farið út í þessa sálma, látið nægja að tala um “samvinnufrumvarp” ríkisstjórnarinnar.
Hver á svo að borga þessi “samvinnuáfrom”? Að sjálfsögðu við sem notum samgöngukerfið.
Í stjórnartíð frjálshyggjukratans Blairs í Bretlandi voru fundin alls kyns dulnefni á verkefni þar sem fjárfestum var opnuð leið niður í vasa skattborgara, fyrst hét þetta Private Finance Initiative, PFI, einkaframkvæmd á íslensku, svo þegar það var orðið óvinsælt eftir að það rann upp fyrir fólki að þetta var dýrari kostur fyrir notandann/greiðandann en bein ríkisfjármögnun, þá var fundið upp nýtt heiti, Private Public Partnership, PPP, samvinnuverkefni (viti menn!) en undir því heiti áttu skattgreiðendur eftir að kynnast nákvæmlega sömu gripdeildunum og í einkaframkvæmdinni.

Einhverjir kunna að bylta sér ef þá ekki snúa sér við

Nú er formaður Framsóknarflokksins sem sé farinn að sigla undir gömlu góðu hugsjón Framsóknar, samvinnuhugsjóninni, til að hygla einkafjárfestum. Einhverrar hreyfingar hygg ég að verði nú vart í gröfum gamalla framsóknarmanna.
Já, en þetta er viðbragðsverkefni gegn Kóvid kreppunni, sagði ráðherrann efnislega í Kastjósi kvöldsins.
Það er í besta falli hálfsannleikur! Frumvarpið byggir nefnilega á tillögum sem ráðherrann hafði látið vinna og lágu fyrir í apríl á síðasta ári að því er ég best veit enda kynnt fyrir mörgum mánuðum, löngu fyrir veirutíð.

Stjórnarfrumvarp

Margir héldu að fyrirfindust vinstri menn í stjórnarmeirihlutanum sem myndu stöðva þetta. Svo hefur ekki reynst vera – til þessa. “Samvinnufrumvarpið” er nefnilega stjórnarfrumvarp.
Á þingi var framlagningu málsins mótmælt. Þar voru stjórnarandstöðuþingmenn á ferð. Ekki veit ég hvað vakir fyrir þeim og kemur sennilega ekki í ljós fyrr en til kastanna kemur. Þeir hafa ekki talað skýrt fremur en stundum áður og í málum af þessum toga hafa þeir verið duglegri að ræða form og umbúðir fremur en innihald – nema náttúrlega Viðreisn sem alltaf reynir að vera trúverðugur frjálshyggjuflokkur og tekst það prýðilega.

Hvernig væri að byrja á að hreinsa upp fyrri “samvinnuverkefni”?

Við þekkjum til eldri “samvinnuverkefna” í samgöngumálum sem sum hver hafa reynst dýrkeypt skattgreiðendum. Og ekki eru þar alls staðar öll kurl komin til grafar. Því fer fjarri. Þar nefni ég sérstaklega Vaðlaheiðargöng sem rannsóknarblaðamenn hefðu mátt kveikja á. Við gætum tínt fleira til þar sem þörf er á upplýstri umræðu um verkefni þar sem fjárfestar hafa getað farið sínu fram vegna villandi upplýsinga um forsendur og ónógrar umræðu um fjármálin eftir að framkvæmdir hófust.
Hvernig væri að skilyrða framsögu um samvinnuhugsjón Sigurðar Inga; þá aðeins skuli hún fara fram að áður hafi farið fram rannsókn á uppgefnum forsendum og fjármögnun Vaðlaheiðarganga og skuldbindinga sem þar koma til með að falla á notendur/skattgreiðendur?