SEGIR RÍKISSTJÓRNINA VILJA FRELSA ÞJÓÐINA FRÁ ÁHÆTTUREKSTRI
Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármálaráðherra, segir ríkisstjórnina staðráðna í að losa þjóðina undan eignarhaldi í bankakerfinu og forða skattgreiðendum þar með undan áhætturekstri!
Ekki eru nema tuttugu ár síðan ríkisbankarnir íslensku voru einkavæddir. Þeir höfðu aldrei verið ríkissjóði byrði að undanskyldum timabundnum vandræðum Landsbankans í byrjun tíunda áratugarins. Ríkissjóður hljóp þá undir bagga en fékk allt endurgreitt – hverja einustu krónu.
Þess var hins vegar skammt að bíða að einkavæddu bankarir gengju nánast af göflunum í gróðabraski og linntu ekki látum fyrr en þeir höfðu keyrt sjálfa sig á kaf og tekið samfélagið allt með í fallnu í allsherjar efnahagshruni. Þetta tók þá aðeins örfá ár.
Og nú segir fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins að frelsa þurfi þjóðina undan áhætturekstri banka með einkavæðingu; banka sem árlega skila milljörðum í ríkissjóð. Er þetta ekki undarleg staðhæfing í ljósi sögunnar?
Þetta var rætt á Alþingi í dag - ekki hvort ætti að selja – þær raddir vantar í þingsal -heldur hvort þetta sé rétti tíminn til að selja.
Ráðherrann svaraði því til að allt yrði þetta að vera trúverðugt og traust, Og alls ekki mætti gleyma því að “traust væri mjög flókið fyrirbæri.”
Í þessu samhengi eru það sennilega orð að sönnu.