SEINHEPPINI Á FRÉTTABLAÐI
03.08.2011
Forsíðu - STÓRFRÉTT Fréttablaðsins í dag er um fangelsi í Víðinesi. Samkvæmt „heimildum" blaðsins hafi verið rætt um það á ríkisstjórnarfundi í gær að í stað þess að reisa nýtt fangelsi eins og lengi hefur verið í kortunum, eigi nú að umbylta húsnæðinu í Víðinesi í þessu skyni.
Fréttablaðið vil ég upplýsa um eftirfarnadi: Rætt hefur verið um að breyta í þessu skyni húsnæði á Vífilstöðum, í Arnarholti, í Víðinesi, í Reykjanesbæ, í hérðasskólum víðs vegar um landið, vinnubúðir á Reyðarfirði hafa verið nefndar og svo framvegis. Niðurstaðan hefur jafnan orðið sú eftir skoðun á málinu að þetta sé óhagkvæmt og muni reynast dýrara þegar upp er staðið, a) vegna nauðsynlegra og umfangsmikilla breytinga á húsnæðinu, b) vegna rekstrarkostnaðar sem er það sem máli skiptir til framtíðar horft.
Ný fangelsisbygging, sem þegar er að grunni til úthugsuð (grunnhugmyndin er komin á blað og bíður útfærslu arkitekta), er hugsuð með þetta í huga, ákjósanlegar aðstæður fyrir starfsmenn og fanga og sem minnstan rekstrarkostnað.
Síðan er náttúrlega einn veikleiki í frétt Fréttablaðsins: Enginn ríkisstjórnarfundur var haldinn í gær og hefur þetta mál ekkert verið rætt á þeim vettvangi frá því ríkisstjórnin kom síðast saman að morgni dags, þriðjudaginn 26. júlí.
Þannig að mér sýnist Fréttablaðið hafa misst eitthvað úr, bæði úr umræðunni og dagatalinu.