Fara í efni

Seinheppinn Hjálmar eða illa upplýstur?

Á heimasíðu Framsóknarflokksins birtist í dag einkar athyglisverðar hugleiðingar formanns þingflokks Framsóknar, Hjálmars Árnasonar. Þar er fullyrt að aðeins eitt mál verði á dagskrá þingsins, lagasetning um þjóðaratkvæðagreiðslu. Gleymdi Halldór að upplýsa Hjálmar um nýja útspilið? Hjálmar segir orðrétt:  ,,Aðeins eitt mál er á dagskrá: Lagasetning um þjóðaratkvæðagreiðslu. Af orðræðum ýmsum má ætla að þá hefjist enn eitt deilumálið – enn ein deilan sem getin er af fjölmiðlalögunum. Þingið verður að leysa það mál í sátt. Þjóðin á einfaldlega heimtingu á því að Alþingi afgreiði þetta hitamál með þeim sóma sem þjóðin kallar eftir." Það er nefnilega það. Hvar er sáttin Hjálmar? Og hvar er frumvarpið? Er það ekki rétt skilið hjá mér að umrætt frumvarp hafi komið frá stjórnarandstöðunni en stjórnarmeirihlutinn hins vegar lagt gamla fjölmiðlafrumvarpið fram að nýju?

http://www.framsokn.is/framsokn/frettir/?cat_id=8046&ew_0_a_id=75578

06. júlí 2004 | Hjálmar Árnason

STRÍÐ EÐA FRIÐUR

Meðal almennings virðist vera farið að gæta nokkurrar þreytu vegna alls fjaðrafoksins í kringum fjölmiðlafrumvarpið/lögin. Líklega á betur við að nota orðið þrætur í þessu samhengi enda þrætueplin óendanleg að því er virðist hangandi á þessum umdeildi lögum. Mótsagnir eru þar líka æði margar. Frjálshyggjufólk stendur að takmörkunum í viðskiptum og vinstrintelligensían hleypur í fang stærsta auðhringsins. Er nema von að fólk eigi bágt með að átta sig. Mjög oft heyrir maður almenning tjá sig um málið með þeim orðum að markmiðin með lögunum séu góð og gild en hraðinn og aðferðin sé röng. Í þessu felast auðvitað einnig ákveðnar mótsagnir og þegar umræðan um málskotsrétt og deilur um forsetaembættið bætast við þá skal engan undra þó þjóðin stynji.

Eftir helgina kemur þing saman. Aðeins eitt mál er á dagskrá: Lagasetning um þjóðaratkvæðagreiðslu. Af orðræðum ýmsum má ætla að þá hefjist enn eitt deilumálið – enn ein deilan sem getin er af fjölmiðlalögunum. Þingið verður að leysa það mál í sátt. Þjóðin á einfaldlega heimtingu á því að Alþingi afgreiði þetta hitamál með þeim sóma sem þjóðin kallar eftir. Lögin eiga ekki að miðast við einn tiltekinn atburð heldur að vera almenn og hafa skírskotun til framtíðar – óháð einstökum málum og einstökum persónum. Alþingi á að hafa metnað til að leysa þetta mál í friði. Og sá friður fæst ekki með öfgum. Þannig má segja að himinn og haf (eða margfræg

gjá) sé á milli þeirra sem vilja að nánast allir kosningabærir landsmenn mæti á kjörstað' og aukinn meirihluta þeirra þurfi til að fella lögin úr gildi. Á hinn bóginn eru þeir sem vilja halda öllu galopnu og frjálsu með því að einfaldur meirihluti þeirra sem á kjörstað mæta ráði örlögum laganna sem Alþingi hefur sett. Haldi talsmenn beggja sjónarmiða fast við sitt eru litlar líkur á að Alþingi afgreiði málið á þann hátt að þjóðinni líði betur á eftir. Deilur og ásakanir munu halda áfram – engum til hagsbóta. Þegar þing kemur saman eftir helgi vona ég að menn slíðri sverð sín og reyni að mætast í þeirri sátt sem þjóðin kallar eftir. Til þess verða menn að horfa til lengri tíma og víkja til hliðar deilum dagsins og brigslyrðum og umfram allt ekki festa sig í einhverjum yfirlýsingum – gefnum í hita leiksins