SENDIBOÐI ANGÚSTÚRU
Alltaf er það tilhlökkunarefni að fá kiljur Angústúru útgáfunnar inn um bréfalúguna. Ég les þær alltaf að bragði, hef verið áskifandi frá upphafi, vildi fá “heiminn heim” eins og Angústúra segir í auglýsingum sínum. Þetta eru orð að sönnu því áhersla er á að færa okkur bókmenntir frá öllum hornum heimsins.
Núna var það Japan. Sendiboðinn heitir bókin og er eftir Yoko Tawada. Þetta er önnur bókin eftir hana sem Angústúra gefur út, hin fyrri nefndist Etýður í snjó. Þar voru ímyndunaraflinu engin takmörk sett og hið sama er uppi á teningnum nú.
Sendiboðanum er lýst sem vísindaskáldsögu. Ég veit varla hvað mér fannst meðan á lestrinum stóð. En þótt aðeins vika sé liðin frá því ég las bókina þá fullyrði ég að hún eldist vel því hún skapar efnahvörf í hugsanaferlinu; hún er eins konar ensím, hvati, fyrir frekari hugrenningar.
Sérstaklega fannst mér gagnlegt að lesa vangaveltur þýðanda, Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur, sem snarað hafði bókinni afbragðsvel, og þá einnig Kristínar Ingvarsdóttur, lektors í japönskum fræðum við Háskóla Íslands. Hún setti bókina í samhengi hamfarasögu Japans, reynslu Japana af jarðskálftum, kjarnorkuárásum og kjarnorkuslysum, mengun jarðar, ábyrgð og ábyrgðarleysi þessu tengt og þá einnig sekt og sakleysi en allt kemur þetta við sögu beint en aðlallega óbeint í Sendiboðanum. Flest skilaboð þessa sendiboða frá Angústúru eru reyndar óbein en taka beinni stefnu eftir því sem frá líður.
Það átti við um Sendiboðann eins og Etýðurnar að ég dáðist að hugmyndaflugi höfundar, hvernig hún lék sér á mörkum margra heima, gerði hið óraunverulega raunverulegt og raunveruleikann óræðan. Húmorinn alltaf undirliggjandi. Þetta reyndist mér þó næstum því ofviða og kenni ég þar um óþolinmæði minni og ákafa í að fá niðurstöðu.
En nú liggja niðurstöður fyrir en hugurinn reikar áfram með öllum sínum hugrenningatengslum. Jarðskjálfti verður í Japan árið 2011 með skelfilegum afleiðingum, þeirra á meðal afdrifaríku slysi í kjarnorkuveri með tilheyrandi lífshættulegri mengun. Allt þetta upplýsir Kristín Ingvarsdóttir, lektor, okkur um í eftirmála sínum.
Og við taka hugrenningatengslin – mín eigin. Kjarnorkuslysið í Fukushima veldur því að Þjóðverjar ákveða að endurskoða kjarnorkuáætlun sína og flýta lokun kjarnorkuvera sem aftur veldur því að eigendur kjarnorkuvers hefja málssókn gegn þýskum stjórnvöldum með himinhárri skaðabótakröfu … sagan heldur semsé áfram, með togstreitu hagsmuna, togstreitu lífs og dauða … en hversu lengi? Á höfundi Sendiboðans er að skilja að ef við ekki skynjum og skiljum okkar vitjunartíma þá verði það varla endalaust.