SENDIHERRAR BANDARÍKJA NORÐUR AMERÍKU
Myndin hér að ofan er af vinnustað sendiherra BNA. Vinnustaðurinn er ekki það sem kallast sendiráð og þeir sem ég kalla sendiherra BNA eru heldur ekki sendiherrar í hefðbundinni merkingu.
Þeir eru með öðrum orðum ekki hluti af vel höldnu stofnanakerfi, njóta engra fríðinda, eru almennt á lágum launum en engu að síður sendiherrar þjóðar sinnar, koma fram fyrir hennar hönd. Þeir eru strætisvagnastjórar.
Það sem vekur athygli mína nú, sem í fyrri heimsóknum til Bandaríkjanna, er hve vinsamlegt fólk almennt er. Þótt fólk sé hér, sem annars staðar, misjafnt og allar svona alhæfingar varasamar, þá er það þó þannig að eitthvað er það í loftinu sem gefur löndum og landsvæðum mismunandi yfribragð; eitthvað í menningunni. Þessu hef ég áður vikið að í heimsókn á sömu slóðir: https://www.ogmundur.is/is/greinar/margt-gott-i-ameriku
Í Bethesda, útborg frá Washington DC, þar sem við hjón dveljumst þessa dagana, nýtum við okkur óspart almenningssamgöngur, þá einkum strætisvagna. Tvívegis höfum við verið í þann veginn að missa af vagni, þá er hinkrað og móttökur vagnstjórans vinsamlegar þegar upp í vagninn kemur. Allt gert til að auðvelda og hjálpa. Sama gildir um afgreiðslufólk í búðum, lestarverði, hinn almenna mann sem ferðamaðurinn leitar til eða hittir á förnum vegi.
Ómetanlegt hlýtur það að vera fyrir Bandaríkin að eiga slíka sendiherra. Þeir vega á móti hinum sem eru á launum og njóta ómældra fríðinda fyrir að tala fyrir utanríksstefnu lands síns; stefnu sem við höfum sem fæst orð um þær stundir sem við viljum vera í góðu skapi og hugsa af hlýhug til BNA.