SÉRA GUNNÞÓR OG CLINT
Seinni partinn í júlí birtist umhugsunarverð grein í Morgunblaðinu eftir séra
Nei séra Gunnþór, ekki vil ég það.
Það er hárrétt sem ýjað er að í þessari ágætu blaðagrein að tengsl eru iðulega á milli kvikmyndaiðnaðar og hergagnaiðnaðar og hefur verið svo í gegnum tíðina. Í fréttum af kvikmyndagerðinni í Krýsuvík hefur komið fram að bandaríski herinn í Keflavík sé kvikmyndagerðarmönnunum innan handar. Hagsmunirnir eru augljósir.
Ég birti hér að neðan umrædda blaðagrein með góðfúslegu leyfi höfundar.
-------------------------------------------------------------------------------------------------------
Vá í Krýsuvík
KRÝSUVÍKURKIRKJA er lítil og lágreist en setur mikinn svip á umhverfi sitt þar sem hún horfir móti Arnarfelli. Blágræn vötn og mislit fjöll, jarðhitasvæði, grónar heiðar og hraun einkenna landslagið. Höfuðskepnur kveðast á og semja áhrifamikið náttúruljóð.
Ein edler ort zum ausspannen und besinnen, hefur Þjóðverji skrifað nýlega í gestabók kirkjunnar. "Göfugur staður til að slaka á og íhuga." Og Bandaríkjamaður ritar: What a blessing to worship the Lord in the awesome example of his creation. "Mikil er sú blessun að dýrka Drottinn í máttugri sköpun hans." Það er sem erlendir menn greini oft betur en við sjálf, sem vaxin erum upp í íslenskum jarðvegi, tign og fegurð íslenskrar náttúru. Hún er gjöfulli auðlind en við, mörg hver, höfum enn glöggvað okkur á er gefur áþreifanlegar tekjur jafnframt því að svala fegurðarþrá og sálarþorsta þeirra sem á vit hennar leita í virðingu og einlægni.
StríðsmyndKrýsuvík og kirkja hennar minna á erfiða lífsbaráttu þjóðarinnar fyrr á tíð en líka dug hennar sem styrktist af Guðstrausti. Vígaslóð heimsins og illvirki sem skera dýrmæta þræði í vefnaði sköpunarverksins eru þar fjarri. Fyrirhuguð kvikmyndataka við rætur Arnarfells, þar sem svipmyndir skelfingaratburða frá síðari heimsstyrjöld verða endurskapaðar, er tilræði við friðsæla fegurð Krýsuvíkur, mynd hennar og minningar. Átökin á japönsku eyjunni Iwo Jima, sem voru grimmust við fjallshæðina Suribachi og Arnarfellið á að vera í kvikmyndinni "Flags of our Fathers," voru einn óhugnanlegasti atburður Kyrrahafsstyrjaldarinnar. Til þess að breyta Krýsuvíkinni í þann vígvöll þarf að svíða og sundurtæta jörð. Skriðdrekar og önnur vígtól verða á ferð, þungar tökuvélar og hundruð manna. Þótt lofað sé að vel verði farið með náttúruna og tjón hennar bætt er vafasamt að unnt verði að lagfæra skemmdir á lífríki, náttúru og menningarminjum. Og satt mun reynast að "betra er heilt en vel gróið".
HelgispjöllÞað er ekki aðeins umhverfisvá sem steðjar að Krýsuvík með stríðsmyndatökunni. Hún er innrás í sögu Krýsuvíkur og dregur hörmungaratburði að henni. Hví er ekki kvikmyndað á eynni japönsku þar sem hildin var háð sem líkja skal eftir við kvikmyndatökuna? Vafasamt er að Japanar kærðu sig um það. Til þess eru sár þeirra of djúp og nístandi af skelfingum stríðsáranna. Það virðist eftirsóknarvert og freistandi fyrir unga Íslendinga að leika hermenn í kvikmynd sem töffarinn svali Clint Eastwood stjórnar. En það er samt óæskilegt hlutverk. Sjómennskan er ekkert grín segja þeir í verstöðvum og á útnesjum enda hefur það kostað mörg mannslíf að draga lífsbjörgina að landi. Hermennska sem felur í sér grimmileg átök og manndráp er enn síður grín eða leikur og mun óvissara er um réttmæti hennar.
Friðelskandi Íslendingar ættu ekki að líkja eftir h
Ljósmyndin þekkta sem ljósmyndari tímaritsins Life tók stuttu eftir orrustuna á Iwo Jima og sýnir hermenn reisa fána á Suribachi-fjalli varpaði ljóma föðurlandsástar á þennan hörmulega hildarleik. Fjölmennur her stríðir nú í Írak eftir innrás í landið. Sýnt er að átökin dragist á langinn og stuðningur minnki við þau. Gæti verið að kvikmyndin Flags of our fathers muni réttlæta þessar stríðsaðgerðir með því að vísa á fornar dáðir og áhrifaríka fánahyllingu á Iwo Jima og gefa til kynna að innrásarstríðið í Írak sé engu síður réttlætanlegt en illvíg átök fyrrum við Japana á Kyrrahafi? Og viljum við Íslendingar styðja það?
Maður og náttúraStríðsmyndagerðin í Krýsuvík stríðir gegn ímyndinni um friðsælan fólkvang og "Samspil manns og náttúru" svo sem árþúsundaverkefni Hafnarfjarðarbæjar í Krýsuvík nefndist við aldaskil. Hún er einnig í ósamræmi við mannræktina í Krýsuvíkurskóla þar sem þeim er liðsinnt er týnt hafa áttum og ánetjast vímuefnum og hún fer illa við málverkin í "bláa húsinu" í Krýsuvík sem birta dulmögn litríkrar náttúru og dýrmætt samband jarðlífs við himin Guðs. Krýsuvíkurkirkja minnir líka á þau tengsl sem ekkert líf má missa svo að það visni ekki í rót. Hún minnir á arfleifð fyrri kynslóða og þýðingu þess að tapa ekki áttum og finna hjartslátt Guðs í lífríkinu og virða það og elska. Styrjaldir og hermdarverk hafa keðjuverkandi áhrif til ills og vísa í öndverða átt. Þau votta tengsla- og kærleiksskort manna í millum og þjóða. Þau votta líka virðingarleysi fyrir lífinu þegar þau eru sýnd í kvikmynd og sveipuð dýrðarljóma og fyrir þeim flaggað.
Krýsuvíkurkirkja er opin og veitir athvarf til að ná áttum og skynja verðmæti og háleitt markmið lífs. Kirkjan verður áfram opin þótt aðkomuleiðir rofni. En það myndi samræmast helgi kirkjunnar og lífsverðmætum að forða frá þeirri vá sem stríðsmyndagerð er í friðsælli Krýsuvík.
Höfundur er sóknarprestur og umsjónarmaður Krýsuvíkurkirkju fyrir hönd Þjóðminjasafns Íslands.