Fara í efni

SÉRÍSLENSK RÉTTLÆTING?

Sæll Ögmundur. Ég vildi vekja athylgi þína á leiðara í Morgunblaðinu 28. nóv. þar sem verið var að prófa nýja söguskoðun, sem gengur út á að réttlæta innrásina í Írak. Ég býst við að hér sé á ferðinni séríslensk réttlæting. Enda er Íslendingum, sem baráttuglöðum þátttakendum í uppbyggingarstarfi Bandaríkjastjórnar í Írak, létt verk að útskýra. Vonandi að hugmynd Blaðsins eig eftir að sigra heiminn. Gaman væri líka að vita skoðun fræðimanna, til dæmis Magnúsar Bernharðs, á þessu merkilega fyrirbrigði, það er hinni "áhugaverðu stöðu í Mið-Austurlöndum um þessar mundir" og útleggingu Morgunblaðsins á henni. En hér er sem sagt leiðarinn: "Staðan í Mið-Austurlöndum er áhugaverð um þessar mundir. Ýmislegt bendir til þess að Bandaríkin séu að ná meiri árangri í að koma á sáttum milli Ísraelsmanna og Palestínumanna, en kannski sést á yfirborðinu. Sú var tíðin að það var nánast óhugsandi að ná nokkrum árangri í þeirri deilu vegna þess, að Sovétríkin, sem þá voru til veittu Sýrlendingum öflugan stuðning og þeir svo aftur herskáum öflum í Palestínu. Eftir fall Sovétríkjanna kom smátt og smátt í ljós, að Saddam Hussein hafði tekið við hlutverki þeirra. Hann greiddi stórar fjárhæðir til fjölskyldna þeirra ungmenna, sem sprengdu sig í loft upp og ollu miklu manntjóni í leiðinni. Eftir að Saddam Hussein var velt úr valdastóli var enginn til þess að taka upp þráðinn. Það hefur jafnframt gefið Bandaríkjamönnum nýtt tækifæri til að ganga hart að Ísraelsmönnum eins og bandaríski utanríkisráðherrann gerði á dögunum, þegar Condoleeza Rice hjó á hnútinn í erfiðu deilumáli með því að neyða Ísraelsstjórn til eftirgjafar. Nú virðist Sharon vera að einangra verstu öfgasinnana í sínum gamla flokki með því að kljúfa Likud. Það er ekki í fyrsta sinn, sem gamlir stríðsmenn snúa við blaðinu. Sennilega hefur Sharon meira traust meðal Ísraelsmanna en nokkur annar til þess að semja um frið við Palestínumenn. Í umræðunum um Íraksstríðið gleymist stundum, að innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak kann vel að vera forsendan fyrir því að friður náist á milli Ísraelsmanna og Palestínumanna. Þetta voru að vísu ekki rökin fyrir innrásinni í Írak enda hefði verið erfitt að rökstyðja hana á þennan veg. En þetta er aukaafurð, sem margir þóttust sjá fyrir á þeim tíma að gæti fylgt með. Ef þetta er rétt mat er ekki víst, að Íraksstríðið eigi eftir að verða Bush Bandaríkjaforseta og repúblikönum eins þungt í skauti í næstu þingkosningum í Bandaríkjunum og margir halda nú. Ef Bandaríkjamönnum tekst á næstu 12 mánuðum að ná afgerandi árangri í deilum Ísraelsmanna og Palestínumanna munu margir verða til að fyrirgefa þeim innrásina í Írak, sem gagnrýna hana nú. "
HH

Ég þakka bréfið. Ekki veit ég hvort þetta er séríslensk skýring en það sem ég hef helst við hana að athuga er að ég tel rangt að líta svo á að vandann fyrir botni Miðjarðarhafs megi fyrst og fremst rekja til hryðjuverkamanna. Hryðjuverkamenn verða til og það fjölgar í þeirra hópi í nokkuð réttu samræmi við ofríkið sem Palestínumenn eru beittir. Þótt fagna beri brotthvarfi Ísraela frá Gaza svæðinu má ekki gleyma því að á Vesturbakkanum og í Jerúsalem og nágrenni eru ísraelskir landnemar að styrkja stöðu sína. Allt er þetta undir forystu Sharons, sem sjálfur á að baki blóðugan feril hryðjuverkamanns.  Við skulum heldur ekki gleyma að Bandaríkjamenn og Bretar eru engan veginn hlutlausir aðkomumenn. Þeir eiga langa sögu á þessum slóðum, Bretar sem nýlenduveldi og Bandaríkjamenn í grimmri hagsmunabaráttu. Í Írak eru þeir fyrst og fremst til að tryggja eigin hagsmuni. Það sem ég tel að þurfi að gerast er að trúverðugleiki Sameinuðu þjóðanna verði endurreistur og inn á herteknu svæðin verði sent friðargæslulið á vegum SÞ - ekki Nató - heldur Sameinuðu þjóðanna. Síðan á alþjóðasamfélagið að sjá sóma sinn í því að leiða Ísraelssstjórn fyrir sjónir að hún á að virða samþykktir Sameinuðu þjóðanna um landamæri við Palestínu. Bandaríkjastjórn hefur haldið hlífiskyldi yfir Ísraelum þegar þessar kröfur hafa verið reistar. Ef stuðningur þeirra við stefnu Ísraela væri úr sögunni, yrði Ísrael að lúta alþjóðasamþykktum og lögum. Þannig að þegar upp er staðið er það ekki aðeins Sýrland og Írak sem studdu harðlínuöfl heldur ekki síður Bandaríkjastjórn. Hætti hún því vænkast friðarhorfur.
Með kveðju,
Ögmundur